Heilræði

Úr balsarykinu

Góð ráð og ábendingar um hitt og þetta í flugmódelheiminum.

Það vill oft gerast þegar verið er að smíða módel úr balsaviði að maður rekur flugvélarskrokkinn utan í eitthvað eða smáhlutir á borðinu lenda undir þegar maður leggur frá sér nýpússaðan vænginn. En það er ekki erfitt að laga slíkar skemmdir.

Skemmdin felst yfirleitt í því að viðaræðarnar í balsanum hafa kramist og við þurfum bara að láta þær þenjast út aftur. Þá er nóg að dreypa smá vatni (bara nokkrum dropum) á skemmdirnar og láta það standa á þeim í smá tíma. Vatnið þrýstir sér inn í æðarnar í viðnum og þenur þær út aftur. Eftir að vatnið gufar upp – það má flýta fyrir því með því að nota hitablásara eins og notaður er við að klæða módelið með plastfilmu – þarf bara að renna yfir svæðið létt með fínum sandpappír og skemmdin er horfin.


Vatn getur lagað viðarskemmdir
Nú fer að líða að því að módelflugmenn fari að fljúga, en þá kemur það fyrir að módelin geta orðið fyrir skemmdum í bílnum á leiðinni. Hér er góð aðferð við að verja væng:

Tvö einangrunarrör úr frauði sem fá má í byggingavöruverslun eru skorin öðrum megin, þannig að hægt sé að smeygja þeim upp á fram- og afturbrún vægsins. Síðan eru notaðar stórar teygjur til að halda þeim á sínum stað. Einfalt og virkar.


Vængur með verjur

Enn um sandpappir. Sumir vilja hafa eitthvað nettara og léttara en álprófíla til að pússa með. Hérna er lausnin.

Í næstu ferð í byggingavöruverslun skaltu fá nokkrar hrærispýtur fyrir málningu. Þær eru annað hvort ókeypis (sérstaklega ef maður er að kaupa málningu) eða afar ódýrar. Síðan skaltu líma renning af sandpappír á báðar hliðar spýtunnar og skrifa fyrir ofan hvaða grófleiki af pappír það er. Þessar pússispýtur eru sérlega hentugar þegar erfitt er að koma hendinni að eða þegar pússa þarf eitthvað lítið og létt


Sandpappír á hrærispýtum

Sandpappír er besti vinur módelsmiðsins. en hann hefur einn galla, hann er sveigjanlegur. Hægt er að búa til þægilega pússikubba úr álprófílum. Ef maður kemur við í næstu blikksmiðju, þá getur maður fengið ókeypis mismunandi langa og breiða búta af L prófílum. Á prófílinn er hægt að líma mismunandi grófleika af sandpappír. Álprófílar eru léttir og meðfærilegir og það er mjög þægilegt að nota þá til að pússa með þeim.


Sandpappír á álprófílum

Loftnetið úr móttakaranum er eitt af því sem alls ekki má detta af flugmódeli. Til að öruggt sé að það þvælist ekki í eitthvað á jörðu niðri eða slitni af við önnur tilvik, þá er best að taka það út út skrokknum á þægilegum stað þar sem móttakarinn liggur og strekkja það aftur á stélkambinn.

Festingin á stélakmbinum þarf ekki að vera merkileg, en hún verður að uppfylla tvö skilyrði: a) hún verður að halda loftnetinu strekktu og b) hún verður að gefa eftir ef eitthvað togar í loftnetið.

Til að þetta gerist er sniðugt að skera smá bút af eldsneytisslöngu (1 – 2 sm), setja títuprjón með stórum haus (fást í Vogue) inn í miðja slönguna og síðan þræða loftnetið framhjá hausnum. Loks má stinga prjóninum ofan í stélkambinn og toga í loftnetið þar til það er strekkt. Nú situr loftnetið rétt, þvælist ekki fyrir á jörðinni og virkar best til að taka við sendingum frá sendinum.


Loftnetið fest en þó ekki

Þegar langbiti er settur í skrokk eða væng og hann er ekki nógu langur, þá þarf að splæsa hann saman. En þá er spurningin: hvernig er öruggt að límingin haldi?

Það er hægt að splæsa langbita saman á nokkra vegur, en öruggast virðist vera að skáskera hann saman þannig að límflöturinn verði að minnsta kosti tvöfalt lengri en bitinn er þykkur. Þá þarf að skáskera.

Besta áferðin við að skáskera er sýnd hér til hliðar. Bitarnir eru settir saman þar sem splæsingin á að vera og límband sett ofaná og undir. Nú er einfalt mál að fara með fína bakkasög á bitana og saga á ská. Þá er líka öruggt að límfletirnir snertist vel.

Til að auka öryggi splæsingarinnar er best að koma því þannig fyrir að hún sé á sama stað og þverbiti eða rif í skrokki og eins utarlega og hægt er á væng. Þá er líka best að miðjan á splæsingunni sé beint fyrir ofan vængrif.


Langbiti skorinn saman

Það kemur fyrir að mann vantar þriðju höndina þegar verið er að setja saman módel. Hér er ein tillaga.

Taktu smá bút af vírherðatré og beygðu það til eins og sýnt er á myndinni. Settu síðan krókódílaklemmu á endann sem stendur upp. Það má lóða hana fasta eða líma með epoxý lími.

Nú er hægt að láta hina og þessa smáhluti í krókódílaklemmuna og síðan líma, lóða eða annað sem þarf að gera.


Þriðja höndin

Stundum þurfum við að líma módelparta saman, forma þá til og síðan ná þeim sundur aftur. Þá er spurningin hvernig er best að fara að því, því að líming sem heppnast, á ekki að losna aftur. Svarið er að finna í Mogganum.

Á myndinni hér til hliðar er verið að setja nef á módel. Kubburinn undir mótornum er kyrfilega límdur á sinn stað, en það verður að vera hægt að ná efri hlutanum af. Þá er gott að nota smávegis hvítt trélim til að líma eina síðu úr dagblaði við kubbin, rétt nóg til að það festist en ekki það mikið að það blotni alvarlega í gegn. Síðan er sett örlítið lím á neðri hlutann og eldvegginn og kubburinn límdur á. Þegar límið hefur náð að þorna, þá má nota hefil, raspa og sandpappír til að forma kubbana.

Þegar pússivinnunni er lokið er komið að því að ná kubbunum í sundur aftur. Það er gert með þunnum hníf, sem er smeygt inn í samskeytin þar sem dagblaðið er og snúið. Ef þetta er gert varlega og nógu þétt, þá kemur að því að dagblaðið, sem er samsett úr nokkrum lögum af viðartrefjum, rofnar og kubburinn losnar af. Þá er bara eftir að hreinsa afgangana af blaðinu af.


Hvernig er hægt að líma án þess að líma

Það kemur stundum fyrir að dekk detta af öxlum sem þau eru fest á jafnvel þó maður hafi fest skrúfuna í hjólastoppinu með ofurmannlegum kröftum. Ástæðan er sú að flöturinn sem skrúfan festir sig við er svo lítill að hann heldur henni ekki.

Til að gera þetta öruggt, þá er nauðsynlegt að fá sér góða þjöl eða hobbýfræsara (Dremel) og sverfa smá sléttan flöt á öxulinn.

Hjólastoppið er síðan sett uppá og skrúfan hert ofan á flata svæðið á öxlinum. Nú fæst nægilega mikið grip til að skrúfan losni ekki aftur. Aukið öryggi fæst með því að setja dropa af skrúfulími á skrúfuna. Skrúfulím má fá í öllum betri byggingavöruverslunum.


Dekkið fest kyrfilega á
Þegar maður þarf að geyma módel, þá er besta aðferðin að hengja þau upp á vegg. Þar eru þau ekki fyrir og geta jafnvel verið til skrauts. Hér til hliðar sést ágætis aðferð til að gera það.

Vejulegt vírherðatré er klippt í miðjunni og armar þess beygðir upp. Upp á þá má síðan draga einangrunarrör úr frauðplasti (eins og sett eru utanum vatnsrör) til að skemma ekki módelið. Þetta er síðan hengt á stóran nagla eða krók á vegg eða upp undir lofti.

Þessi geymsluaðferð hentar vel fyrir lítil módel og módel af millistærð, en ég myndi setja dálítinn vara við að geyma stór kvartskalamódel á vírherðatrjám. Í þeim tilfellum er hægt að fá tilbúnar baulur í byggingavöru-verslunum, setja sömu einangrunarrörin uppá þær og hengja módelin upp á stélinu.


Módel hengt upp á herðatré.
Ýmsir hlutar flugmódela eru festir á með gaddaróm, t.d. vængir, mótorar eða annað álíka. Þá er mikilvægt að þessar gaddarær séu vel fastar í, sértsaklega vegna þess að stundum er ekki möguleiki að komast að þeim þegar búið er að fullklára módelið.

Þegar rærnar eru festar, þá er byrjað á að bora gat sem hentar boltunun sem koma eiga í þær. Síðan er gatið víkkað út með bor öðrum megin, þannig að bolurinn á gaddarónum komist frílega inn í gatið, eins og sýnt er á myndinni.

Þegar rónum er endanlega fest, þá er gott að setja smávegis epoxýlím á gaddana og plötuna sem þeir eru á (bara rétt nóg til að halda rónum – ekki svo mikið að það sullist út um allt), setja rærnar á sinn stað og skrúfa rétta stærð af bolta í þær. Upp á boltana eru settar skinnur í yfirstærð til að hægt sé að taka á boltunum án þess að hausarnir á þeim fari inn í gatið. Ef frílega er farið með epoxýlímið, þá er hægt að setja smá júgursmyrsl (vaselín) á gengjurnar á boltunum til að þeir festist ekki.


Gaddarær þarf að festa almennilega
Það má búa til mjög góða þvingu, sem nær langt og er með nokkuð samsíða kjafta, með því að taka venjulega þvottaklemmu og snúa henni við. Gormurinn er tekinn af og settur á aftur með armana öfuga eins og sýnt er á myndinni.

Klemmur eru mikið notaðar í módelsmíði
Þegar setja á lamir í stýrifleti á módelum, þá er ekkert eins gott til að gera rétta rifu fyrir þær eins og naglaþjöl. Naglaþjalir má fá í ýmsum stærðum og þykktum, en þær bestu eru úr áli. Þær eru oft sléttar frenst og þá má brjóta framan af þeim með töng.

Til að fá víðari rifur fyrir stærri lamir má nota platínuþjalir, sem venjulega eru notaðar til að sverfa platínur í bílum.


Góð þjöl