Smíðað eftir teikningum

eftir David Boddington

Þessi grein er fengin úr Radio Control Model & Electronics Plans Handbook 4, 1982/1983.

Hvers vegna ættu flugmódelsmiðir að hafa fyrir því að búa til módel eftir teikningum þegar til eru alls konar smíðasett? Smíðasett spara manni gríðarlegt vesen við að búa til hlutana í módelið og vandræðin við að finna og kaupa efnið sem þarf í módelið.

Ástæður þess að módelmenn vilja smíða eftir teikningum eru margar og mismunandi. Fyrir suma er það vissan að þeir hafi lagt sitt af mörkum við smíðina og undirbúning þeirra hluta sem þarf til að klára það. Ef ekki væri nein ánægja við að smíða og fljúga sínu eigin módeli, þá væru allir bara að fljúga tilbúnum ARF módelum. Módelframleiðendur geta ekki vonast til að taka yfir markaðinn, þó vissulega megi finna fjölda módela á hillum verslana. Kostnaður er önnur hlið á þessu máli. Til að byrja með er ekkert endilega víst að það sé mikill sparnaður við að smíða eftir teikningu – líklegast er hann enginn. En þegar þú safnar að þér efni til smíða og þú þarft ekki að hlaupa eftir hverjum smáhlut, þá er líklegt að sparnaðurinn aukist.

Módelið valið

Þó mörg flugmódel séu ómótstæðileg, er ekkert endilega víst að þau séu akkúrat módelið fyrir þig. Módelin sem hægt er að velja úr þessari handbók dekka öll getustig frá þeim einföldustu til þeirra flóknustu. Hverju módeli fylgir stjörnugjöf sem þú getur tekið mið af og valið smíði sem hentar þér. Reyndu að velja teikniingar sem gera auknar kröfur til þín (bæði í smíði og flugi), en þó aðeins eitt skref í einu. Ef þú hefur bara smíðað eitt byrjendamódel, þá er ekki mikið vit í að reyna að setja saman módel á borð við verðlaunamódel David Vaughans af P51 Mustang. Það er nokkuð víst að þú getur aldrei klárað það, og þó þú ljúkir við smíðina, þá er nokkuð víst að flugið endar með ósköpum ef þú reynir að fljúga því.

Líklega hefur þú góða hugmynd um hvernig módel þig langar að smíða, þ.e. svifflugu, mótorflugu, líkan, hraðaflugu, o.s.frv. Áður en þú ákveður þig endanlga skaltu taka tillit til hvernig aðstöðu þú hefur til flugs, hvort þú getur flutt módelið, og hvaða aðstöðu þú hefur til smíða. Hangfluga væri til að mynda ekki góð hugmynd ef þú hefur aðeins tækifæri til að fljúga henni tvisvar til þrisvar á ári. Sviffluga sem getur bæði flogið hástart og hang væri þá miklu betri kostur.

Hreyfillinn valinn

Ef þú ætlar ekki að kaupa nýjan hreyfil í módelið þitt, þá er líklegt að þig vanti teikningu af módeli sem passar fyrir hreyfil sem þú átt. Margar af teikningunum tilgreina stærðarmörk hreyfla sem þarf – þó að stundum virðist þessar hreyfilstærðir óraunhæfar. Athugaðu að tveir hreyflar af sömu stærð geta verið mjög mismunandi þegar afl þeirra er metið. Svokallaðir ‘.40’ hreyflar frá ólíkum framleiðendum, mis gamlir og frábrugðnir í hönnun geta haft afl frá 0,5 hestöflum til 1,5hö þegar nýjustu og bestu eru teknir til athugunar. Hvernig er þá ákeðið hvaða hreyflar henta hvaða módeli? Athugaðu að minnstu hreyflar sem gefnir eru upp fyrir ákveðið módel eru alveg örugglega af nýjustu og aflmestu gerð, eða, að ætlast er til að módelið sé smíðað mjög létt – nokkuð sem við ættum allir að geta gert eftir smá æfingu.

Þegar um er að ræða daglegt flug sem ekki felur í sér keppni, þá er líkast til best að fara í miðjan skalann sem gefinn er upp fyrir módelið. Leyfðu sérfræðingunum að nota stærstu og sterkustu hreyflana ásamt þeim sem helst vilja ekkert annað en allt of mikinn kraft. Of mikið afl getur komið manni í vandræði – en ekki endilega samt ef maður fer varlega – módel með of lítið afl eru alltaf í hættu. Hættulegasti tíminn í flugi flugmódela er þegr þau eru nálægt jörðinni og ef módelið er alltaf nánast ekki að fljúga, þá er bara spurning um tíma hvenær jörð og módel sameinast á frekar neikvæðan hátt.

Sækjum teikningu

Nú breytir þýðandi textanum vegna þess að handbókin sem hann er tekinn úr er ekki lengur notuð. Þær teikningar sem sýndar voru í þessu riti (ásamt mörgum í viðbót) fást núna hjá fyrirtæki sem kallast Sarik Hobbies. Vefsíða þeirra er https://www.sarikhobbies.com/. Þar má líka fá þær greinar sem voru skrifaðar um smíðina og jafnvel útskorna hluti í módelin.

Tvær aðrar vefsíður bjóða upp á teikningar af hundruðum flugmódela ókeypis. Þetta eru https://aerofred.com/ og https://outerzone.co.uk/. Báðar þessar síður bjóða ókeypis upp á niðurhal á .PDF skrám (sem stundum geta verið nokkuð stórar), sem síðan er hægt að fá prentaðar út hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á prentun á pappír, sem er stundum hátt í metri á breidd. Þýðandi hefur notað fyrirtæki á Akureyri sem hét einu sinni Ásprent, en kallast núna Prentmet Oddi með útibú í Reykjavík, Akureyri og Selfossi. Vefsíða þeirra er https://prentmetoddi.is/.

Þegar þú ert búinn að velja teikningu og, jafnvel fá hana út prentaða, þá skaltu skoða hana vel og vandlega svo það fari ekki á milli mála að þú skilur allt sem á henni er sýnt. Þú getur borið saman ofanvarp, hliðarmyndir og þverskurði og ættir þannig að fá góða hugmynd um hvernig módelið er sett saman. Athugaðu líka hvort hönnuðurinn hefur skrifað texta á teikninguna til að útskýra hvað hann var að meina og lestu í gegnum leiðbeiningarnar (ef þær eru fyrir hendi) til að fá góðar hugmyndir. Flestar teikningar eru gerðar eftir ákveðnum reglum um hvað er verið að sýna og hvernig. Mynd 1 sýnir þessar aðferðir, þó að sumir hönnuðir hafi sinn eigin stíl. Það er núna sem smiðurinn tekur ákvarðanir um hvað má betur fara í módelinu og hvort einhverju þarf að breyta. Athugaðu samt að sá sem hannaði módelið hefur lagt í vinnu við að prófa það og að breytingar eru ekki alltaf æskilegar.

Staðsetning fjarstýritækja er afar mikilvæg áður en smíði hefst – það minnkar vesen og stress og sparar tíma. Flestar teikningar sýna staðsetningar fyrir fjarstýritæki, þ.e. servó, móttakara og rafhlöðu, en stundum þarf að aðlaga þessar staðsetningar að þínum tækjum. Teiknaðu á teikninguna hvar servó eiga að koma, festingar fyrir þau, tengi (stýrisstangir, barkar, kaplar og stýrivírar) rafhlöður, móttakari og rofi – hann á auðitað ekki að vera sömu megin og útblástur frá hreyfli. Þetta sama á við um hreyfilinn og eldsneytistankinn sem á að nota. Sumar eldri teikningar sýna mögulega úrelt stýritæki, t.d. bara með einni rás, og þetta þarf að hunsa og teikna inn nýrri tæki. Maður gæti haldið að þeir sem selja teikningar ættu að uppfæra þær með tilliti til nýrri tækja, en ef að er gáð, þá er óvinnandi vegur að fara í gegnum og laga hundruðir teikninga á nokkurra ára fresti til að sýna á þeim nýjustu græjur. Það sem þarf sérstaklega að skoða og skipuleggja eru staðsetning eldsneytistanks (hafa hann í sér hólfi aðskilinn frá rafhlöðu) staðsetning rafhlöðu (hugsanlega varin með frauði eða svampi á meðan smíði stendur yfir) og stýrisstangir (er hægt að koma þeim fyrir eftir að smíði er lokið?) Oft sýnir teikning aðeins annan vænghelminginn til að takmarka stærð hennar. Hinn vænghelmingurinn er hugsanlega sýndur með strikalínum eða punktalínum ofan á hinum vængnum, en ef ekki, þá þarf oft að meðhöndla teikninguna þannig að hægt sé að smíða tvo vænghelminga. Alls konar efni eru til sem gera pappírinn gagnsæjan, en lampaolía er líklega einföldust. Maður bara nuddar pappírinn með bómullarhnoðra vættum í olíunni og þá sér maður það sem er prentað hinum megin.

Innkaupalisti

Gerðu lista yfir efnið sem þú gætir þurft að nota til að smíða módelið og mundu eftir að skrá hjá þér þyngd og þéttleika balsans sem þú vilt nota. Það að sjá mun á balsaviði er nokkuð sem kemur með reynslunni, en það er ekki alltaf tilgreint á teikningum. Það er bara hægt að alhæfa um gerð balsa og viðar yfirleitt, en hér er lauslegur listi:

 • skrokkhliðar : miðlungsþéttur
 • tvöfaldanir : miðlungs / harður
 • bak-klæðning (þykkari) : mjúkur
 • rammar : miðlungs
 • vængrif : miðlungs, kvartskorinn
 • væng klæðning : miðlungs / mjúkur, sveigjanlegur
 • bitar : miðlungs / harður, beinn
 • vængendar : mjúkur
 • borð í stél : mjúkur

Sölumenn balsaviðar ættu að geta leiðbeint þér um kaup á réttum tegundum balsa; það borgar sig alla vega að eyða smá tíma í að velja réttu borðin, sérstaklega þar sem þarf að nota pör af plötum, eins og í skrokkhliðum, vængklæðningum, afturbrúnum, o.s.frv. Ef þú ert heppinn, þá gætir þú fundið borð sem eru öll skorin úr sama trénu (og paraðar plötur væru þá önnur hver plata úr bunkanum) og þær þekkjast á því að trefjar þeirra liggja nánast alveg eins. Kauptu á sama tíma allt annað sem þú þarft í módelið, eins og mótorbúkka (mældu breidd hreyfilsins), eldsneytistank (sem passar í hólfið fyrir hann), nefhjólastell (rétt hæð frá öxli að eldvegg), spinner, kúpul, harðvið, stálvír, horn, stýrisklemmur, festingar — og svo framvegis. Það getur tekið heilmikinn tíma að setja saman tæmandi lista yfir all sem þig vantar, en það getur borgað sig ef þú getur sleppt því að fara margar ferðir í módelbúðina, eða ef þú þarft að panta þetta á netinu.

Búðu til þitt eigið smíðasett

Það sparar líka heilmikinn tíma ef maður býr til og sagar út alla þá hluti sem þarf í módelið. Fyrst þarf að flytja útlínur hlutanna af teikningunni á efnið, og það eru nokkrar aðferðir til að gera það.

 1. kalkipappír: Notaðu kalkipappír fyrir handskrift — ritvélapappír er nánast gagnslaus (fæst í Pennanum/Eymundson). Þú þarft að nota nokkur blöð af þessu ef þú ætlar, t.d. að teikna heila skrokkhlið í einu. Það er heldur ekki sérlega sniðugt að teikna fríhendis með blýanti, vegna þess að blýanturinn á það til að fylgja trefjum balsaviðarins frekar en strikunum á teikningunni. Notaðu réttskeiðar og franskar kúrvur til að teikna eftir og límdu teikninguna niður með límbandi svo hún hreyfist ekki á meðan.
 2. Draga upp: Það má draga útlit hlutanna af teikningunni upp á hálf gagnsæjan teiknipappír og síðan nota það með kalkipappíraðferðinni til að fá útlínur hluta á efnið. Þess ber þó að geta að þessi aðferð getur orsakað ónákvæmni og ekki er mælt með henni nema þú viljir eiga teikninguna ókrotaða.
 3. Pinna aðferðin: Efnið er staðsett undir teikningunni og síðan eru útlínur hlutarins merktar í gegnum teikninguna með títuprjóni eða pinna. Síðan má tengja þessi pinnagöt með kúlupenna, eða, ef þú ert mjög öruggur, að skera beint eftir þeim. Þegar útlínur eru merktar svona blint, þá er nauðsynlegt að staðsetja efnið nákvæmlega undir teikningunni svo að öruggt sé að teikningin nái ekki út fyrir balsabrettið og líka að sjá til þess að stefna trefjanna sé rétt. Þegar um er að ræða langa beina línu, þá er freistandi að nota útlínur balsaborðsins. Þetta krefst þess að balsinn sé staðsettum mjög nákvæmlega undir teikningunni, sem er erfitt, og ekki er öruggt að brúnir balsaborðsins séu beinar. Hægt væri að klippa litla ,,glugga“ í teikninguna til að auðvelda uppsetninguna, en þá ertu auðvitað búinn að skemma teikninguna.
 4. Ljósrit: Einföld módel með margar beinar línur og fá flókin form er auðvelt að skera út úr balsa. Hægt er að skera út tiltölulega einföld form með því einfaldlega að mæla þau út eða með því að framlengja strikin og leggja efnið ofan á teikninguna (sjá Mynd 2). Vandi eykst þegar formið verður flóknara, t.d. þegar skera þarf út rif o.s.frv., sem finnst í flóknari módelum. Það getur verið erfitt að afrita þessi form í höndum og fljótlegasta aðferðin við að afrita þessi form — bæði í balsa og krossvið — er að nota ljósrit af viðkomandi hluta teikningarinnar. Flest bókasöfn eiga ljósritunarvélar sem hægt er að nota og margar þjónustur ljósrita hvað sem maður vill fyrir lítinn pening. Ljósritið er einfallega lagt á hvolfi ofan á efnið og heitt straujárn er látið ofan á. Hitinn frá straujárninu bræðir blekið á pappírnum og færir hann á efnið (sjá ljósmyndir). Ljósritið gæti hugsanlega verið örlítið stærra en teikningin, en líkast til ekkert til að skemma fyrir.

Hlutar búnir til

Ramma og rif má klippa beint úr teikningunni og festa þá á efnið með límspreyi. Gallinn við það er að þá ertu búinn að skemma teikninguna og hefur ekki aðgang að þessum hluta seinna. Ef límspray (3M 77) er notað, þá er best að sprauta bara á pappírinn, láta það þorna í smá tíma og síðan leggja það á efnið. Þannig er hægt að losa þennan hluta af efninu aftur þegar búið er að skera út.

Hvernig hlutarnir eru skornir út fer eftir því hversu þykkt og hart efnið er. Þunnan balsavið — allt að 5mm þykkan ef hann er mjúkur eða miðlungs harður — má skera með hobby hníf með beitt blað. Beinar línur ætti að skera eftir réttskeið úr málmi þannig að afskurðurinn sé utan við réttskeiðina. Þannig fer hnífurinn frá hlutnum ef skurðurinn mistekst (sjá Mynd 3). Víða boga má skera fríhendis með léttum, en stöðugum þrýstingi — ekki reyna að skera alla leið í gegn í einni umferð, skerðu nokkrum sinnum. Krappa boga er best að skera með stuttum skurðum þar sem hnífurinn nálgast bogann við hverja umferð. Þykkari balsavið og krossvið sem er 1,5mm þykkur ætti að skera með laufsög. Vélknúin tifsög auðveldar slíka vinnu verulega, en er ekkert endileg nákvæmari. Einföld laufsög getur verið mun nákvæmari, svo framarlega sem rétt er að henni farið (sjá Mynd 4). Þrennt sem hafa ber í huga er stöðugur vinnubekkur, að halda blaði sagarinnar lóðréttu og að færa efnið að söginni, þ.e. sögin er meira og minna á sama stað en hlutnum er ýtt að henni — eins og gerist í rafknúinni tifsög. Láttu sögina ganga upp og niður í reglulegum takti, maður á það oftast til að hægja á henni eða stöðva hana þegar maður kemur að kröppum beygjum. Stangir upp að 5mm þykkar má skera með beittum hníf, en allt sem er þykkara en það ætti að saga með lítilli bakkasög. Ef sagað er í hverja hlið stangarinnar og henni svo snúið um 90 gráður ætti að enda með hreinum skurði — ef fyrsta og síðasta sagarförin ná ekki saman, þá er skurðurinn ekki hornréttur.

Ef beygja á hertan stálvír (píanóvír) þarf að nota skrúfstykki og trékubba til að ná beinum köflum á milli beygjanna. Notaðu góðan tússpenna til að merkja hvar beygjan á að koma og settu svo glært límband yfir merkinguna til að hún máist ekki í burtu. Skerðu vírinn í lengd með þjöl eða járnsög (góðar vírklippur ættu að ráða við allt að 1,5mm vír). Þegar samhverfur vírhlutur er beygður, eins og hjólastell, byrjaðu í miðjunni og beygðu sömu beygjur báðum megin. Athugaðu hvernig allt passar — viður og málmur — miðað við teikninguna og aldrei gera þig ánægðan með eitthvað sem er ekki rétt. Gallar munu bíta þig í bakið seinna. Staðsetning og virkni flestra hluta ætti að vera augljós, en einstaka hluta (lík vængrif, styrkingar, uppfyllingar o.s.frv.) ætti að merkja sérstaklega til að forðast rugling.

Smíðabretti

Það eru til tvær gerðir af smíðabrettum: góð og vond! Gott smíðabretti er lárétt, rétt, hreint og getur tekið við pinnum án þess að nota hamar, eða með yfirborð sem er svo laust í sér að pinnarnir halda engu. Vond smíðabretti eru snúin, þakin límbólum, eða með ómögulegt yfirborð. Snúin smíðbretti eru til ama og eiga hvergi heima nema á ruslahaugunum. Til að brettið sé rétt verður borðið eða bekkurinn sem það situr á að vera rétt líka. Þetta getur verið teikniborð, gegnheil hurð, marmaraplata eða gegnheil borðplata fest niður á massífa undirstöðu.

Besta yfirborð sem hægt er að nota til að smíða á er hljóðeinangrandi trétex eða plötur sem notaðar eru í korktöflur t.d. í skólum og svoleiðis. Þessi borð eru límd ofan á smíðabrettið með snertilími (Jötungrip) þannig að þau lyftist ekki af aftur.

Við erum um það bil tilbúin að fara að smíða! Festu teikninguna niður með límbandi og settu þunnt plast yfir hana til að verja hana. Einnig er hægt að nudda kertavaxi á samskeyti til að teikningin límist ekki við módelið. Þú skalt ekki klippa teikninguna í búta ef þú kemst hjá því.

Ef þú færð teikningu senda í pósti, þá er búið að brjóta hana saman til að koma henni í umslag. Hægt er að slétta verstu krumpurnar með vel heitu straujárni. Það er líka sniðugt að fá sér sértaka skurðarplötu. Þetta getur verið plata úr þunnu MDF eða masóníti, eða bútur af hilluefni úr furu. Einnig fást sérstakar skurðarmottur í búðum sem selja hannyrða- og skrifstofuvörur. Þær eru þannig að hnífsoddurinn getur gengið inn í þær, en svo lokast sárið aftur og hverfur um leið og hnífurinn er tekinn í burtu.

Greinar sem fylgja teikningum leiðbeina oft smiðnum að líma part ,,K“ við part ,,Y“ án þess þó að taka fram hvers konar lím er best að nota. Úrval líma er gríðarlegt og það eru til mismunandi lím sem geta límt nánast hvað sem er við allt og alla. Nýlega eru komin á markaðinn lím sem líma plastefni við önnur plastefni og málma við málma jafn vel og væru þeir lóðaðir eða soðnir saman. Í módelsmíðinni notum við alla jafna fjórar gerðir af límum:

 1. Trélím: Það má segja að trélím (hvítt PVA lím eða gult aliphatic lím) duga á 95% af öllum límingum sem við þurfum að gera. Gula límið er oft betra en það hvíta vegna þess að það er ekki eins gúmmíkennt þegar það hefur harðnað og pússast betur. Aliphatic Resin frá Delux Material er afskaplega þægilegt í notkun og Titebond II virkar vel. Grip trélím frá Malningu er gamall vinur og stendur fyrir sínu. Bæðu gula og hvíta trélímið tekur sig á 10 til 15 mínútum, en þau eru ekki almennilega hörð fyrr en eftir rúman klukkutíma. Það getur því reynt á þolinmæðina að nota þau.
 2. Epoxý lím: Það eru til margar gerðir af epoxý límum og munurinn á þeim er aðallega hversu hratt þau harðna. Tíminn sem límið tekur er allt frá 4 til 5 mínútum upp í 24 tíma. Best er líklega að eiga margar gerðir, en í flestum tilfellum er best að nota 20 til 30 mínútna lím. Epoxý lím er best að nota til að líma saman við, málm og plast og er sérlega gott á harðvið og krossvið, sérstaklega ef einhver hætta er á að eldsneyti eða útbástur frá hreyfli geti leikið lausum hala. Því lengur sem epoxý lím er að harðna, því sterkari verður límingin, vegna þess að límið hefur tíma til að ganga inn í viðinn og grípa fast. Hraðharðnandi epoxý lím getur verið stökkt og ætti bara að nota í neyðartilfellum og viðgerðum.
 3. Snertilím: Þetta lím er mest notað þar sem líma þarf á stórar tvöfaldanir þar sem trélím er ekki hentugt (þarf loft til að geta þornað og vatn í því verpir tréhluti) og epoxý lím væri of þungt. Snertilími er smurt þunnt á báða fleti sem eiga að stertast og síðan látið þorna. Þegar fletirnir snertast grípur límið hratt og fast. Það er mikilvægt að setja hlutina rétt saman, því að það er ekki mögulegt að ná þeim í sundur til að lagfæra mistök. Smjörpappír er settur á milli flatanna til að þeir geti ekki náð að snertast fyrr en þeir sitja alveg réttir. Þá má draga smjörpappírinn undan á meðan hlutunum er haldið fast. Að lokum eru hlutirnir pressaðir saman til að losna við loft á milli þeirra og til að láta allt límið grípa.
  • Sérstakt snertilím er notað til að líma spón og balsavið á frauplast kjarna í vængjum þar sem venjulegt snertilím leysir upp frauðplast. Balsaviðarstangir má svo líma á vængkjarna með trélími áður en vænhelmingarnir eru límdir saman með epoxý lími.
 4. Sekúndulím: Þetta skemmtilega lím — vel þekkt af því að líma fingur við flugvélar — er góð viðbót við límsafn flugmódelsmiða. Margar gerðir af þessu lími, venjulega kallað CA eða Cyanoacrylate á ensku, eru nú til í ýmsum þykktum og mismunandi hraðvirk. Sekúndulím má nota við nánast allar límingar í módelsmíði. Það eru meira að segja komin sekúndulím sem geta límt frauðplast án þess að bræða það og plastglugga án þess að þeir verði skýjaðir. Eini gallinn við sekúndulím er að sumir smiðir fá ofnæmi fyrir gufunum sem af þeim stafa.

Skrokkar

Flestir skrokkar byrja sem einfaldur kassi eða box, jafnvel þó að þeir séu síðar rúnnaðir af með því að bæta utan á þá römmum, skinni og balsakubbum. Hluti skrokkhliðanna sem sjást á ofanvarpinu á teikningunni eru samsíða og þar getum við límt tvo til þrjá ramma lóðrétt við hliðarnar sem grunn fyrir restina af skrokknum. Hvort sem hliðarnar eru búnar til úr stöngum eða borðum með tvöföldunum, þá verða rammarnir (skrokkrifin) að festast mjög nákvæmlega. Það gæti þurft að framlengja línurnar á teikningunni upp fyrir og niður fyrir skrokkinn sjálfan svo það sé síðan hægt að merkja þessar línur á hliðarnar. (sjá Mynd 5). Pinnaðu aðra hliðina niður á smíðabrettið og límdu rammana sem afmarka samsíða svæðið á hliðina. Notaðu lítin vinkil til að rammarnir séu örugglega þvert á hliðina og athugaðu aftur á meðan límið þornar, því það getur togað rammana til þegar þap harðnar. (Mynd 6). Það fer ekki milli mála að vandlegur skurður á hlutum og nákvæm staðsetning er afar mikilvæg. Lím eru til þess gerð að festa saman hluti sem snertast og að minna lím virkar oft betur en meira. Þó að sum lím, eins og eppoxý lím og þykk sekúndulím og lyftiduft geti fyllt í rifur, þá er ljóst að slík samskeyti verða alltaf veikari og þeim fylgir auka þyngd.

Þegar rammarnir eru kyrfilega fastir við aðra hliðina er hægt að líma hina á sinn stað. Athugaðu aftur að rammarnir séu þvert á hliðina og, ef það er flatur hluti ofan eða neðan á skrokknum (þ.e. vængsæti eða slíkt), að pinna samsetninguna við smíðabrettið til að halda henni stöðugri. Pinnaðu rammana með reglulegu millibili til að koma í veg fyrir að þeir losni frá hliðinni. Ef þessi miðja á skrokknum er vandlega sett saman og rétt, þá er ólíklegt að restin af skrokknumm verði skökk. Ólíklegt, en ekki ómögulegt. Vinding og ójafnar sveygjur er auðvelt að framkalla þegar framhluti og afturhluti skrokksins eru tekinn saman samkvæmt teikningunni. Ef viðurinn í hliðarnar var vel valinn, þá minnka líkurnar á að hliðarnar bogni mismunandi og það er auðvelt að fylgjast með því ef miðjur eru merktar á alla ramma. Ef kíkt er frá aftari enda skrokksins þá ætti að sjást hvort allar línur standast á (sjá Mynd 7). Ef þú ert í vandræðum með að fá samhverfar hliðar, þá gætir þú þurft að setja skástífur á milli hliðanna til að halda þeim réttum (sjá Mynd 8). Þegar efri og neðri klæðningar eru komnar á skrokkinn eru skástífurnar óþarfar. Ef engar klæðningar eru notaðar er ráðlagt að láta skástífurnar vera á sínum stað.

Athugaðu á meðan þú smíðar að stundum þarf að gera ýmisleg við hlutana áður en þeir eru notaðir. Til dæmis þarf að bora göt á skrokkramma fyrir stýriköplum, eldsneytisslöngum, aðgangi að rafhlöpu, staðsetningu rofa o.s.frv. Servósæti þarf stundum að bora fyrir festiskrúfum og staðsetja svo þannig að servóið sé á nákvæmlega réttum stað. Mótorbúkkar þurfa stundum göt fyrir hreyfilinn eða festiplötu. Staði sem ekki er mögulegt að komast að síðar, t.d. hólfið þar sem eldsneytistankurinn situr, þarf að verja fyrir eldsneyti og útblæstri áður en þeim er lokað. Settu stýrisstangir og kapla á meðan skrokkurinn fer saman ef það er ekki mögulegt að koma þeim fyrir seinna.

Auðvitað eru margar gerðir af samsetningu á skrokk. Sumir nota miðjukjöl sem hálframmar eru límdir á. Það sama á við hér um að halda römmum lóðréttum og miðlínunni beinni og síðar verður mun auðveldara að koma vængjum og stéli fyrir ef skrokkurinn er réttur og beinn. Prófaðu hvort vængurinn, stélið og hreyfillinn geta setið þar sem þeir á að vera, hjólastell, vængpinnar, eldsneytistankur, servó og tengingar. Þetta er allt mun auðveldara áður en skokknum er lokað.

Vængir:

Þegar boginn skrokkur er til vandræða, þá er undinn vængur algert stórslys. Það er erfitt að trimma til módel með undinn væng og dugar í raun bara fyrir einn hraða. Ef hraðinn er aukinn eða minnkaður, þá dettur módelið strax út úr trimmi. Vinding er hægt að setja í væng á meðan hann er smíðaður eða þegar hann er klæddur. Það eru fáar afsakanir fyrir því að setja inn vinding á meðan vængurinn er smíðaður. Þetta gerist bara ef smíðabrettið er ekki rétt eða með því að þröngva inn hlutum sem ekki passa. Viður er ekki dautt efni og hann getur hreyfst og þannig undið vænginn ef hitastig og rakastig breytast. Þráðbein balsaspýta keypt í módelbúð getur verið allt annað en bein þegar hún hefur setið á verksæðinu í smá tíma. Ef slík spýta er notuð í vængsmíði kallar það á mismunaátök í vængnum sem endar á að verða undinn. Hægt er að laga beygjur og vinding í balsa með því að nota gufu og síðan pinna balsann niður þar til hann þornar. Harðari viður eins og greni og bambus láta ekki svona vel að stjórn, en stundum er hægt að rétta úr þeim með því að sökkva þeim í 15 til 30% blöndu af vatni og ammóníaki. Þegar timbrið þornar fær það aftur fyrri styrk. Ef raufar fyrir bita eru settar á ranga staði svo að það reynist nauðsynlegt að þröngva bitanum í raufina setur það líka óæskilega krafta í vænginn, svo betra er að skera nýja rauf fyrir bitann.

Það getur verið leiðigjarnt að skera út rif í væng ef hvert rif er mismunandi að stærð. Sumir vængir eru hannaðir með jafnt bil á milli rifjanna svo að hægt sé að búa til rifin með svokallaðri samlokuaðferð eins og sést á Mynd 9. Athugaðu að rótarrifið er haft fyrir utan skrossviðarmátann, því að ef það er fyrir innan, þá verður það of stutt. Samlokuaðferðin er heppileg fyrir vængi með litla sveigju aftur eða fram. Ef vængir eru mikið sveigðir, þá þarf að skera hvert rif fyrir sig eða setja frauðplast millilegg á milli rifjanna í samlokunni. Þannig verður skáskurðurinn á fram- og afturbrúnum ekki svo mikill. Ekkert slíkt vandamá kemur upp ef fram- og afturbrúnir eru samsíða.

Auðveldustu vængir í smíði eru þeir sem eru með beint og slétt neðra borð. Þá er hægt að byggja liggjandi á smíðabrettinu. Þannig vængi má finna á byrjendamódelum og sportmódelum, ekki vegna þess að þetta eru betri vængir fræðilega séð, heldur vegna þess að það eru meiri líkur á að slíkir vængir séu rétt smíðaðir frekar en vængir með sveigt neðra borð eða samhverfir. Ef vængur er með sveigt neðra borð, þá þarf að vanda sig betur við smíðina svo þeir verði ekki undnir. Oft þarf að byggja undir bita, fram- og afturbrúnir til að fá rétta hæð á þær, og vandinn eykst ef byggja þarf útsveig (washout = minna áfallshorn á endnum en á rótinni) á vænginn. Best er ef svona undirbygging nær alla leið undir vænginn, svo að hvert rif hefur stuðning. Stöku kubbar undir vængnum með reglulegu millibili eru í lagi ef þeir eru festir vandlega við smíðabrettið (Mynd 10). Reyndu að líma fasta eins marga h luta af vængnum og þú getur áður en þú lyftir honum af brettinu. Það er greinilega ekki hægt að líma neðri balsaklæðninguna á, en klæðning á efra borð, rifjaræmur og vefi ætti að festa vandlega til að vængurinn verði stífur. Láttu þetta sitja á smíðabrettinu í að minnsta kosti hálfan sólarhring til að límið nái að harðna almennilega (Mynd 11).

Hallastýrin eru annað hvort hönnuð sem sér hlutur festur við vænginn eða innbyggð við hann, sem þarf að skera frá eftir smíði. Þegar hallastýrin eru sérstök, en innbyggð í vænginn, þá er samt betra að setja þau saman á sama tíma og vænginn sjálfan vegna þess að þá sést hvort vængurinn er rétt smíðaður eða ekki. Ekki gleyma að gera ráð fyrir stjórnhornum inni í vængnum eða servóum ásamt götum fyrir stýrisstangir eða stjórnvírum að servóinu. Það er frekar erfitt að setja inn göt og víraleiði eftir að vængsmíði er lokið. Ekki heldur gleyma að halla rótarrifinu eins og þarf til að fá aðhalla á vænginn; búðu til máta sem þú getur lagt að rifinu svo þú getir séð hvort það hallar rétt. Það eru ekki mörg vandamál við að líma vænghluti saman, en það eru nokkur atriði sem ágætt er að hafa í huga. Þegar þú límir efri bita og frambrún við rifin, þá er gott að merkja rifjastaðsetningar á hlutina og síðan setja límið þar. E f þú reynir að renna líminu í raufarnar, þá er líklegt að límið leki niður á neðri bitann eða neðst í raufina þar sem það gerir ekki nægilegt gagn. Þegar frambrúnarklæðning er límd niður þá er betra að byrja á vængbitanum og síðan sveigja klæðninguna niður að frambrúninni, nema þegar klæðningin er límd upp að frambrúninni, þá er þessu snúið við. Ef vatni er úðað utan á klæðninguna, þá byrjar hún að bog na og hjálpar til við að leggja hana niður og gott er að nota helling af prjónum til að halda henni á meðan límið tekur sig. Þú ert að pinna ,,blint´´ í frekar þunn rif, svo það er gott að kíkja neðarlega til að sjá hvar rifin liggja svo þú hittir á þau (sjá mynd 12). Klæðningin á neðra borðið er sett eftir að búið er að losa vænginn af brettinu, en það gæti þurft að setja aðhallabita í áður en það er gert. Aðhallabitar eru annað hvort límdir í á meðan vængurinn er smíðaður (jafn vængþykktinni, á milli rifja sem eru þá skorin frá fyrir hann) eða sett þegar vænghelmingarnir eru límdir saman. Þeir eru þá lægri en vængþykktin og rennt í raufar sem eru skornar í rifin. Skoðaðu teikningarnar vandlega til að sjá hvernig þetta er gert, því að annars gætir þú þurft að skera burt klæðningu og rif til að koma þessum bitum fyrir. Nánast allir vængir eru með einhvern aðhalla og þegar vænghelmingar eru límdir saman þá þarf að lyfta öðrum vængendanum upp til að fá réttan halla. Flatbotna vængir þurfa bara sléttan kubb undir endarifið til að sitja rétt. Vængir með sveigð rif gætu þurft flóknari undirbyggingu til að forðast að setja óæskilegan vinding í vænginn. Besta aðferðin er að sketa til borð af réttri hæð með úrskurð fyrir vængrifið svo það sitji rétt. (sjá Mynd 13) Að sjálfsögðu þarf líka að skorða vængrótina af svo hún sitji rétt. Hafðu hólf fyrir servó, inndraganleg hjól o.s.frv. eins lítil og mögulegt er ef vængurinn er full klæddur. Mest af styrk vængsins kemur frá klæðningunni (nema margir bitar séu notaðir) og ef skorið er úr henni þá dregur það úr þessum styrk.

Í staðinn fyrir uppbyggða vængi eins og sýnt er á teikningunni, þá er hægt að hafa þá úr frauðplasti, klædda með balsa eða viðarspón. Þetta er góður möguleiki fyrir mörg módel, en hafa ber í huga að í flestum tilfellum eru slíkir vængir þyngri en uppbyggðir. Ef smíða á létt módel eða stór, þá er mælt með að vængirnir séu uppbyggðir, því þyngslin geta breytt flugeiginleikum módelanna. Á hinn bóginn, ef módelið er sterksmíðað, þá eru frauðplastvængir góður möguleiki, en samsetning þeirra ætti að vera eins létt og hægt er með balsa skinni, fra- og afturbrún og enda. Mjög fá módel verða nefþung þegar smíði er lokið og það er frekar vandamál að þau eru stélþung, sérstaklega skalamódel sem eru hönnuð miðað við þungan hreyfil í nefinu. Til að forðast að þurfa að setja mikið af dauðri þyngd í nefið, þá þurfum við að sjá til þess að stélfletir og stýri séu eins létt og mögulegt er. Teikningar af litlum módelum taka oft fram að nota skuli léttan balsa í stélið. Því miður kallar notkun á mjúkum og léttum viðið á að skemmdir koma fram á frambrúnum og endum ef flogið er af grasvöllum. Ef þunnur harðviður (venjulega 3mm fura) er settur á brúnir stélflata þá kemur það í veg fyrir svona skemmdir. Þegar furan er pússuð í fomið sem á að vera á frambrún, er þyngdaraukningin í lágmarki. Annað ráð er að setja sekúndulím í viðinn í brúnunum. Þetta herðir trefjarnar í balsanum og eykur þol hans fyrir höggum.

Hvenær á að setja lamirnar í? Það er ekkert einfalt svar við þessari spurningu, það fer eftir gerð módels og klæðningu þess. Þunnar CA lamir úr mylar má líma í á síðustu metrunum með sekúndulími — aðeins mælt með fyrir minni og léttari módel. Lauflamir og pinnalamir með gadda þurfa aðeins meiri undirbúning og raufar og göt ætti að gera áður en klæðning hest. Þegar festa á lamirnar með staut (tannstöngul eða grillpinna) til að auka öryggi, þá skiptir máli hvenær það er gert svo stautarnir verði ekki sýnilegir. Þegar mála á módelið, þá koma lamirnar eftir klæðningu en fyrir fyllingu og málningu. Ef nota á plastfilmu, þá er ekkert eitt svar — ef þú klæðir fyrst, þá sjást öryggisstautar, en ef þú setur stýrin á fyrst, þá er mjög erfitt að klæða. Í þeim tilfellum þá er líklega best að nota lamir sem ekki þarf að negla, þ.e. pinnalamir eða lamir með götum á laufunum, sem auka límgildið.

Í lokin er eitt atriði sem vert er að minnast á. Allar teikningar sýna jafnvægispunkt fyrir módelið — eða öruggt svið þar sem hann má vera — NOTAÐU HANN. Þar sem gefið er svið fyrir jafnvægispunktinn, þá skaltu byrja á fremri mælingunni og svo getur þú fært hann aftar jafnt og þétt eftir því sem þú lærir betur á módelið. Það að setja fingur undir vænginn til að finna jafnvæispunktinn er ekki mjög vísindaleg aðferð. Merktu jafnvægispunktinn á vængiin og hengdu módelið svo upp eins og sýnt er á Mynd 14. Módelið ætti að hanga með nefið örlítið niður og tóman tank.