Cosford 2004

Grein skrifuð fyrir Large Model Association Journal og þýdd á íslensku fyrir vef FMF

„Af hverju hefur þú ekki módel með þér næst?“

Skjöldur Sigurðsson, einn besti módelsmiður Íslands hefur farið til Cosford á Englandi í mörg ár til að vera þar við stórmódelflugkomu Large Model Association. Þar hefur hann eignast marga vini og hefur fengið meira frelsi til að að ráfa um svæðið og tala við módelmenn en aðrir gestir. Ekki leið á löngu þar til spurningin hér fyrir ofan fór að koma. Í hvert sinn fann Skjöldur ástæðu til að koma ekki með módel.


Skjöldur raðar módelum í kassana

Síðan kom ágúst 2003. Skjöldur og flugmódelklúbbarnir í sameiningu fengu þau Steve Holland, Sharon Stiles og Richard Rawle til að koma til Íslands og sýna Íslendingum nokkur módel, bæði stór og smá og hvernig á að fljúga þeim. Spurningin kom upp enn eitt sinn og í þetta skipti hafði Skjöldur engar afsakanir. Steve og Richard skoð’uðu módelin hans Skjaldar og lýstu því yfir að þau væru byggð samkvæmt ströngustu reglum þannig að þau gætu flogið á stærstu og bestu módelflugkomu í Englandi.

Það að fara til Englands með nokkur módel er ekki auðvelt verk. Skjöldur ákvað þó að fara þangað með þrjú: 1/8 skala DC-3 sem hann hafði byggt eftir teikningum frá Ziroli, Bud Nosen P51Mustang í skalanum 1/4,3, og 1/8 skala Ziroli B25 sem hann var um það bil að klára. Þessi þrjú risamódel urðu að fara í stóra kassa til að komast með flugi til Englands.

Kassarnir undir módelin urðu að vera stórir. Eftir að hafa raðað módelunum saman vandlega til að þau tækju sem minnst pláss, þá urðu kassarnir tveir 260 sentimetrar á lengd, 120 á hæð og 70 á breidd. Semsagt, stórir. Spurningin sem kom þá upp var hvort þeir kæmust inn í venjulega flugvél.


Það fer vel um módelin þarna

Skjöldur þurfti líka lið af aðstoðarmönnum sem vildu borga sjálfir undir sig til Englands. Bráðlega gáfu þrír Íslendingar og einn Englendingur sig fram, ásamt flugmönnunum tveim. Steve Holland ætlaði að fljúga tveggja-hreyfla módelunum, Richard Rawle átti að fljúga orrustuvélinni og aðrir í liðinu voru Jakob Jónsson, Akureyringarnir Guðjón Ólafsson og Guðmundur Haraldsson, og Stephen Atherton frá Englandi: hópur með meira en hundrað ára módelreynslu saman.

Til að koma módelunum saman fóru Skjöldur og Jakob til Englands viku áður en sýningin var, en nú lenti leiðangurinn í fyrstu (en ekki síðustu) keldunni: módelin fóru ekki um borð í flugvélina. Eftir að hafa leitað um allt á Heathrow, kom skýringin í ljós: hlaðmennirnir á Heathrow snerta ekki á neinu sem ekki flokkast undir það að vera „ferðataska“ og vegna þess að hlaðmennirnir á Íslandi vissu þetta, þá settu þeir kassana aldrei um borð í velina. Nú þurfti Skjöldur að fjarstýra með símanum sínum því að módelin færu frá Íslandi til Englands. Eftir þrjá taugastrekkta daga gerðist það loksins með tregri aðstoð þriggja flugfélaga. Að lokum flutti Blue Bird fyrirtækið módelin til Austur Anglíu í Englandi þar sem Steve og Skjöldur gátu sótt þau eftir langa ferð í sendiferðabílnum.

Nú tóku Steve og Richard við og byrjuðu að „laga“ módelin. Næstumþví allar raflagnir voru rifnar út og í staðinn voru settir vírar og tengi sem áttu að vera örugg samkvæmt enskum stöðlum. Mótorarnir voru skoðaðir innan og utan og B25 módelinu testflogið. Steve og Richard flugu líka Douglasinum og Mustanginum og allt fór eins og smurt, nema að smá óhapp í lendingu beyglaði hjólastellið á Douglasinum.

Hinir tveir

Hinir tveir liðsmennirnir frá Íslandi, Guðjón og Guðmundur, komu til Englands á fimmtudeginum fyrir Cosford sýninguna og byrjuðu á því að villast. Það ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að fara eftir M40 hraðbrautinni frá London til Birmingham, en nei takk, við tókum rangan afleggjara og enduðum á hraðbraut M1 og fórum þar með frekar í norð-austur en norð vestur eins og til stóð. Að auki hafði einhverjum snillingi dottið í hug að bæta við nýjum hluta við M6 með tollhliðum eftir að kortabókin sem við vorum með hafði verið prentuð. Það er hreint kraftaverk að við enduðum ekki einhvers staðar í Skotlandi.

Cosford 2004
Guðmundur fær sér kaffi í Leifsstöð

Við fundum Telford að lokum (en þangað höfðum við reynt að stefna) og viltumst umsvifalaust aftur við að leita að hótelinu okkar. Við þurftum að hringja tvisvar í hótelið og fá leiðbeiningar (hver segir að karlmenn biðji aldrei um leiðbeiningar) og eftir að hafa ekið í hringi í dálítinn tíma fundum við smábæinn Ironbridge, en þar var hótelið sem við höfðum pantað. Það er ruglingslegt að aka öfugu megin á veginum og í hvert sinn sem við hægðum á okkur til að lesa á skiltin, þá kom óþolinmóður breskur ökumaður aftan að okkur og flautaði eins og hann fengi borgað fyrir það, þannig að við urðum að halda áfram í staðinn fyrir að stoppa. Hvernig er hægt að aka í Englandi án þess að missa vitið?

Eftir að þeir komust loks á hótelið fengu þessir tveir ferðamenn frábæra hugmynd: förum og finnum Cosford; þá getum við farið þangað snemma í fyrramálið og skoðað safnið allan daginn.

Það reyndist auðvelt að finna Cosford því að einhver góðhjartaður maður hafði sett upp röð af gulum skiltum sem vísuðu veginn að Stórmódelaflugkomunni. Allt í einu sáum við flugbrautir og stórt grænt skilti sem á stóð COSFORD. Við beygðum til vinstri og ókum (kanski ekkert sérlega hægt) að byggingum sem við héldum að væru safnið. Allt í einu stigu tveir illilegir hermenn með stórar hríðskotabyssur í veg fyrir okkur og spurðu okkur (alls ekki neitt kurteislega) hvert við værum að fara og hvað við ætluðum að gera þar. Við útskýrðum frekar taugastrekktir að við værum að leita að stóru módelunum og þá slökuðu hermennirnir sýnilega á og sýndu okkur hvert við hefðum átt að fara. Líta terroristar virkilega út eins og tveir viltir Íslendingar?

Við fórum aðeins lengra og fundum rétta staðinn. Við sáum meira að segja nokkra módelmenn að setja risamódelin sín saman fyrir framan tjöldin og húsbílana sem þeir gistu í og fórum að hlakka til flugkomunnar. Það kvöldaði hratt og við vildum fara að koma okkur almennilega fyrir á hótelinu, en þegar við komum að hliðinu, þá hafði einhver læst því með stórum hengilás. Við vorum læstir inni og hugsunin um að við þyrftum jafnvel að gista alla nóttina í litlum bílaleigubíl var ekki góð. Svo við fórum að leita að einhverjum sem gæti verið með lykil og eftir að hafa spurt þrjá eða fjóra menn sem við hittum, þá fundum við rödd Arthur Searl. Við hittum manninn aldrei í eigin persónu, en rödd hans er rödd þess sem ræður. Hann réð líka við það að lýsa fólki sem tekst að láta læsa sig inni eftir lokun. Við lærðum þarna þrjú ný orð í ensku. Ég fletti þeim upp eftir að ég kom heim og þau eru notuð til að lýsa á mjög litríkan hátt aðgerðum og vitsmunum fólks sem ekki er með heila eða hæfileikann til að nota hann. Þessi orð eru ekki af þeim toga sem hægt er að prenta á Netinu, þannig að ég set þau ekki hér.

Föstudagur

Cosford 2004
Flóin fljúgandi: fysta heimasmíðaða flugvélin.
Hún hafði alvarlegan hönnunargalla og gat í raun
ekki flogið.

Við vorum á ferðinni snemma á föstudagsmorgni og, eins og svo margir aðrir, á leið til Cosford. Skjöldur og Jakob fylltu sendiferðabílinn hans Steve með módelum, svo að hann gat bara haft með sér hálf-skala Zlininn: það var bara ekki meira pláss í bílnum.

Við Guðmundur fórum í safnið í Cosford og núna fengum við að fara inn í flugskýlin. Við byrjuðum á því að fara í bókabúðina. Við höfðum sjaldan séð annað eins safn af bókum um flugvélar og slepptum fram af okkur beislinu. Við keyptum svo margar bækur að það varð snemma ratljóst að við gætum engan vegin borið þær um allt safnið, þannig að við þurftum að fara með þær í bílinn fyrst. Kannski hefði verið viturlegra að enda í búðinni, eða hvað?

Cosford 2004
Berið sama stærðina á JU 52 vélinni og Guðmundi.

Safnið í Cosford er eitthvað sem allir flugáhugamenn ættu að skoða. Þarna er safnað saman alls konar flugvélum og tækjum þeim tengd, allt frá fyrstu dögum flugsins og fram á okkar daga. Það sem kom okkur mest á óvart var hversu stórar flugvélarnar eru. Þær eru miklu stærri en maður heldur eftir að hafa skoðað ljósmyndir eða kvikmyndir af þeim. Junkers Ju 52 vélin frá Þýskalandi til dæmis er RISASTÓR og V2 flugskeytið líka. Miklu stærra en maður hafði ímyndað sér. Á hinn bóginn er japanska sjálfsmorðsflugvélin Kirsuberjablómið svo lítið að það mætti smíða það í fullri stærð sem módel án þess að það verði mikil fyrirferð í því. Flóin fljúgandi frá Mignet gæti líka orðið áhugavert módel ef maður gerði smá breytingar á því til að það gæti í raun flogið. Það væri lítið módel þó það væri í hálfum skala.

Cosford 2004
Kirsuberjablómið er lítil flugvél.

Við hittum Steve, Skjöld og Jakob um hádegisbilið þegar við áttum enn eftir að skoða eitt flugskýli, en þeir voru þá að skríða inn eftir heilmikinn akstur frá Bristol. Við fengum okkur að borða og skoðuðum síðan síðasta skýlið saman. Þegar við komum út sáum við að heilmargir húsbílar og sendiferðabílar með húsvagna í eftirdragi höfðu raðað sér upp við hliðina á skýlinu eins og kappakstursbílar á ráslínu. Ég spurði engan hvers vegna, ég bara gerði ráð fyrir að þeir væru þarna í rólegheitum að sleikja sólskinið áður en þeir færu á sinn stað á tjaldstæðinu. Klukkan hálf fimm varð, hins vegar, allt brjálað og kappakstur virtist kominn af stað. Húsbílarnir og sendiferðabílarnir voru settir í gang og hentust í loftköstum út eftir einu því stærsta túni sem ég hef séð í Englandi. Hvað í ósköpunum var að gerast?

Cosford 2004
V2 flugskeytið. Stærra en maður hafði ímyndað sér.
Guðmundur fór inn á bannsvæði til að ég gæti tekið af
honum myndir við hliðina á þessum flugvélum

Þá rann upp fyrir okkur ljós: þeir sem komu með módel til að fljúga á sýningunni máttu tjalda við flugbrautina! Frábær hugmynd. Og nú var hafin kappakstur um að koma sér fyrir á bestu stöðunum. Þetta leit út eins og hópur fólks sem hleypur í áttina að strætó og ætlar allt að ná sér í bestu sætin. Þetta gat orðið æsandi. Kannski eitt eða tvö slagsmál. Við vorum tilbúnir að taka þátt í þeim og sjá til þess að vinir okkar næðu góðum stað fyrir húsbílana sína og vagna. Þetta leit út eins og maður gæti ímyndað sér að gerðist á Íslandi og Víkingaskapið svall í okkur Guðmundi þegar við fengum far í sendiferðabíl formanns LMA, Dave Johnson.

Cosford 2004
V1, eitt hræðilegasta, en þó óskilvirkasta vopn Þjóðverja í
síðari heimsstyrjöld

En þegar við komum nær flugbrautinni þá var okkur ljóst að í staðinn fyrir slagsmál fram í rauðan dauðan fyrir bestu stöðunum, þá var þetta alveg einstaklega breskur atburður. Allir virtust hafa fyrirfram ákveðinn sess og vögnunum var raðað reglulega og beint upp með rétt bil á milli þannig að hægt væri að leggja bílum við hliðina á þeim eftir þörfum. Lítið spennandi það!

Cosford 2004
Svartur Mustang, afar kúl og flottur

Brátt fóru menn að draga módelin sín út á flugbrautina og flug hófst. Ekkert rosalegt flug, en samt einstaka frábært módel. Það var greinilegt að stóru módelinum yrði ekki flogið fyrr en daginn eftir.

Um leið og LMA tjaldið opnaði gengum við Guðmundur í félagið. Það kom af stað umræðu í húsvagninum hans Steve. Vegna þess að fjöldi LMA félaga var að aukast á Íslandi og greinilegur áhugi fyrir að koma með módel á flugkomur félagsins, þá var ljóst að einhver yrði að taka að sér að gerast prófdómari fyrir LMA á Norðurhjara. Steve bað um að sá okkar sem hafði verið lengst í hobbíinu tæki þetta að sér og eftir að hafa borði saman bækur okkar var ljóst að ég var líklega búinn að stunda þetta lengst, þó ég væri að sönnu ekki elstur. Þar sem ég hafði líka þýtt mest af prófareglum BMFA á íslensku, þá væri líklegt að ég þekkti nógu mikið af reglunum til að taka prófdómarapróf.

Cosford 2004
Frávinstri: Kallin sem var að taka prófið, Steve Holland,
Guðjón (sem var líka að taka próf) Skjöldur, aðstoðarmaður
kallsins sem var að taka prófið. Módelið er illa smíðaður
Ljúflingur (Super Lowley)

Og það vildi til að einn umsækjandi hafði beðið Steve að halda fyrir sig flugpróf LMA þetta sama kvöld. Þetta var nú sett í gang og ég átti að fylgjast með prófinu og sjá hvernig Steve bæri sig að. Það sem kom bæði mér og manninum sem var að taka prófið á óvart var, að eftir flugið bað Steve mig um að gefa mitt álit á því hvernig manninum hafði gengið og segja til um hæfni hans til að fljúga. Ég velti málinu vandlega fyrir mér í smá tíma og komst síðan að þeirri niðurstöðu að ég gerði líkast til engum neinn greiða með því að vera góður við kallgreyið. Í heila mínútu listaði ég galla sem ég hafði séð á undirbúningi hans og flugi og eftir því sem ég nefndi fleiri ambögur, því daprari varð maðurinn á svipinn. Það var greinilegt að hann trúði ekki því sem var að gerast. Hann vissi sem var að flugið hjá honum hafði ekki verði upp á það besta, en þetta var nú helst til mikið. Þegar ég hafði lokið máli mínu sneri hann sér til Steves, sem, í staðinn fyrir að skella skollaeyrum við þessum uppistönduga útlendingi og bullinu sem hann hafði rutt út úr sér, samþykkti allt sem hann hafði sagt. Hann bætti þó nokkrum jákvæðum punktum við allt þetta neikvæða íslenska raus. Niðurstaðan var sú að ég náði mínu prófi og var orðinn fyrsti prófdómari LMA á Íslandi. En aumingja kallinn féll og verður að taka prófið aftur seinna.

Laugardagur :: Og svo var byrjað að fljúga.

Cosford 2004
Íslenska liðið setur saman módelin

Ég held að enginn okkar sem kom frá Íslandi, nema ef til vill Skjöldur, hafi séð svona mörg módel saman komin á einn stað. Og það líka svona stór módel.

Fyrsta mál á dagskrá var að gera módelin hans Skjaldar tilbúin. Steve ók á sendiferðabílnum þangað sem hann vildi að við værum og við ruddum módleunum út úr bílnum og byrjuðum að setja þau saman, öll nema Mustanginn. Richard ætlaði að laga hann eitthvað til. Mótorinn í honum átti það til að ofhitna og hann ætlaði að búa til loftspjöls til að beina loftfllæðinu yfir hann. Við stilltum líka nokkrum litlum íslenskum fánum í kringum módelin svo enginn væri í vafa um hvaðan þau væru.

Cosford 2004
DR1 þríþekja í hálfum skala er STÓRT módel

Guðmundur og ég eyddum næsta hálftímanum í að taka myndir. Á meðan við gerðum það, þá var kallað saman á flugmannafund. Ókei, við erum ekki flugmenn, heldur aðstoðarmenn, svo við þurfum ekki að fara á fund. Við héldum bara áfram að taka myndir. Svo fórum við út fyrir girðinguna til að kíkja í fyrsta skiptið á sölubásana sem búið var að koma upp og seldu módelvörur til almennings á niðursettu verði. Allt í einu kom Skjöldur hlaupandi og sagði okkur að við fengjum ekki að fara inn fyrir gisrðinguna aftur. Allir meðlimir liðsins áttu að mæta á flugmannafunbdinn og fá þar smá límmiða sem heimilaði þeim að fara inn og út um hliðið á girðingunni.

Cosford 2004
Cosford 2004
Tvær stórar og stórkostlegar tvíþekjur, Bulldog og
Nieuport 28, báðar smíðaðar af Ian Turney-White

Ekkert mál! Við förum bara og útskýrum fyrir þeim að við hefðum misst af fundinum og ættum að fá miða. En þegar við nálguðumst hliðið sáum við að hliðverðirnir voru engir venjulegir 50 kílóa aumingjar, heldur tvær stærstu og íllilegustu varðhunbdar sem nokkru sinni hafa varið inngang í það allra heilagasta af öllu heilögu. Þeir voru að vísu ekki með sjálfvirku vopnin sem hermennirnir höfðu haft, en þeir virtust ekkert síður hættulegir. Við nálguðumst þessi vöðvabúnt varlega og hvísluðum varlega til þeirra vandamál okkar. Okkur til mikillar furðu reyndust verðirnir vera þægilegustu náungar í heimi og þeir vísuðu okkur á sendageymsluna, en þar fengum við þessi eftirsóttu verðlaun: pínulítinnn límmiða sem búið var að prenta stafina „L.M.A.“ á. Við vorum hólpnir.

Cosford 2004
Ein af Wellington sprengjuvélunum. Þær eru stórar og að sjá fimm svona fljúga saman er ógleymanlegt.

Það væri allt of langt mál og allt of leiðinlegt að lista öll þau módel sem við súm, svo ég ætla bara að nefna nokkur sem voru sérlega áhugaverð..

Hálf skala Fokker DR1 módelið sem Dave Horton var með hlýtur að vera eitt stærsta flugmódel sem hefur flogið. Hann lítur ferlega vel út á jörðinni, efsti vængurinn nær meðalmanni í öx. Hann er ekki málaður í þessum venjulega Rauða Barón lit sem virðist vera á öllum þríþekjum, heldur í blöndu að ýmsum áhugaverðum litum. Hann flaug tignarlega, en eins og svo mörg módel af flugvélum frá fyrri heimsstyrjöldinni, þá vildi það ekki snrta jörðina aftur. Skriðþunginn í efsta vængnum kemur í veg fyrir að hægt sé að lenda nema rúlla á bakið. Við tókum líka eftir því að á módelinu var stafsetningarvilla: á einu lokinu ofantil á módelinu stóð „Öil“ í stað „Öl“, sem er þýska og þýðir olía.

Cosford 2004
Cosford 2004 Vulcan sprengjuvélin er stór, eins og sést þegar miðað er við Guðmund. Rosalega flott sánd þegar hún flaug.

Hinum megin við okkar módel voru tvíþekjurnar hans Ian Turney-Whites, Nieuport 28 og Bulldog. Þetta er gaur sem kann að smíða og fljúga flugmódelum.

Að sjá flokk að Wellington sprengjuvélum fljúga saman var afskaplega gaman. Þessi módel, sem flest eru smíðu af Ghost Squadron hópnum, eru risastór og að sjá þau fljúga í þéttri fylkingu nokkra sentimetra frá flugbrautinni er nokkuð sem maður gleymir ekki í bráð. Á sunnudeginum flugu nokkrar B17 og Junkers með þeim í lokaatriði flugkomunnar.

Vulcan spregjuvélin var líka svakaleg. Maður hreyfði sig ekki á meðan hún flaug. Það voru dálítil vonbrigði að Victor sprengjuvélin kom ekki og að Valiant sprengjuvélin flaug ekki. Það hefði verið áhrifamikið að sjá allar V-sprengjuvélarnar fljúga saman.

Cosford 2004
B52 er stórt módel, en því miður var ekki hægt að fljúga henni. Eftir því sem módelin verða flóknari, því fleira getur
bilað.

Og svo kom B52 sprengjuvélin. Við vorum búnir að lesa um þetta módel í módeltímaritum og höfðum heyrt sögur af því, en stærðin kom samt á óvart. Þ´vi miður fengum við ekki að sjá hana gera meira en bara aka hratt niður flugbrautina, vegna þess að það komu upp einhver stýringavandamál og flugtak misfórst.

BOAC Comet módelið, sem Steve Rickett flaug var enn eitt svakamódelið. Hvernig hafa þessir menn allan þennan tíma og fjármagn til að smíða þessar rosalegu flugvélar? Þegar Cometinn lyftist og fór að flúga, þá var hann ekki lengur módel. Það var algjörlega engin leið að sjá mun á módelinu og flugvél í fullri stærð. Svona á skalaflug að vera.

Cosford 2004
Hmm. Það þarf ekki mörg orð um svona módel.

Íslenska liðið flaug einu sinni. Steve Holland flaug DC3 módleinu. Á meðan hann flaug sagði Ted Alllison sögu flugvélarinnar í hátalarakerfið. Flugið tókst afar vel, nema að þegar Steve lenti því þoldi annað hjólastellið ekki hliðarvindinn og brotnaði. Ekkert mál, við gátum lagfært það.

Cosford 2004
Rigning – og búi að breiða yfir módelin. Ef vel er að gáð, þá má sjá Jakob fórna sér undir seglinu.

RIGNING! Rétt fyrir ellefu fór að rigna. Og engin smá rigning. Allt varð gegnumblautt á stundinni. Sem betur fer hafði Steve Holland verið nógu skynsamur að hafa méð sér segl sem hægt var að breiða yfir módelin. Og jafnvel yfirbreiðslurnar eru stórar í Englandi, því eftir að hafa raða módelunum þétt saman þá gátum við ekki einasta breitt yfir öll íslensku módelin heldur llíka Zlininn hans Steves og 1/3 skala Texaninn hans Ted Allisons. Allt sem ekki skemmdist við að blotna var síðan notað til að halda seglinu niðri. En eitt hornið virtist ætla að lyftast upp, svo Jakob tók að sér að redda því með því að skríða undir og vefja sig inn í seglið. Þar lá hann þar til stytti upp. Hvílík fórn! Sem betur fer stytti upp eftir u.þ.b. 45 mínútur og hægt var að byrja að fljúga aftur.

Cosford 2004
Mrs Allison var eina konan sem flaug á Cosford þetta árið. Á vængnum stendur „Beware, Female Pilot!“.

Sunnudagur :: síðasti dagurinn, en ekki sá sísti.

Cosford 2004
Viðgerðir á hjólastellinu

Sunnudagurinn byrjaði á því að við gerðum við hjólastellið á Douglasinum. Smabland af rigningu, hliðarvindi og fyrri skemmdum hafði gert það að verkum að hjólastellið losnaði. Steve sagði okkur hvernig við yrðum að gera við og Skjöldur fór og keypti balsavið og lím. Þegar hann kom aftur settum við tvo trekantlista undir stellfestingarnar og heltum tonnataki á mótorhúsið, sem var byrjað að spennast í sundur vegna bleytunnar. Eftir að viðgerðin var búin skoðaði Steve handarverk okkar og dæmdi vélina flughæfa.

Cosford 2004
Hálf skala Pitts að hverfa í reyk.

Á meðan hafði flug haldið áfram og nú voru enn fleiri áhugaverð módel á lofti. Nú flugu nokkur listflugsmódel, en það sem var einna áhugaverðast af þeim var hálf skala Pitts sem jós úr sér svo miklum reyk í propphangi einu sinni, að hún hreinlega hvarf og flugmaðurinn varð að lyfta henni upp úr reyknum til að sjá hvað hann var að gera. Það var ennþá þónokkur hliðarvindur og hann gerði það erfitt fyrir nokkur módel að taka á loft og lenda, sérstaklega léttari vélar úr fyrra stríði. Það var athyglisvert að sjá hvernig flugmennirnir björguðu módelum sínum aftur og aftur, flug eftir flug. Til þess þarf verulega færni.

Cosford 2004
Svifflugumódel af mótorflugvél lendir með miklum hávaða. Það eiga að vera þrjú mótorhús á vængnum.

Eitt sérlega áhugavert módel var mótorlaus útgáfa af rússneskri flutningaflugvél. Módel af Agwagon flugvél dró hana í loftið og síðan sveif hún niður aftur. Á meðan verið var að draga hana í lofti, þá datt eitt gerfi-mótorhúsið af, en fannst seinna og einn áhorfandinn kom með það til baka. Þegar svifflugan lenti aftur, þá lét flugmaðurinn hana setjast á malbikið, frekar en grasið og þá heyrðist eitthvert það agalegasta skraphljóð sem hugsast getur.

Cosford 2004
C17 Globemaster. Stórt módel og ofboðslega vel smíðað. Það er eitthvað við þetta módel …

Og svo kom C17 Globemaster. Við vorum búnir að sjá smá búta úr sjónvarpsþætti á Discovery Channel sem einn vinur okkar hafði tekið upp, þar sem verið var að smíða C17 módelið, en enginn okkar hafði séð alla þættina. Það var heillandi að sjá þegar verið var að gera módelið tilbúið. Var það í raun svona stórt? Myndi það geta flogið? Myndi Land Roverinn detta afturúr því? Spurningarnar voru endalausar og Colin Straus og hans lið svaraði þeim öllum á sama þægilega og þolimóða háttinn og við vorum farnir að búast við af enskum flugmódelmönnum.

Cosford 2004
Land Roverinn dettur, en engin fallhlíf. Úbbs!

Og C17 vélin flaug. Og afturúr henni stökk fallhlífarmaður sem sveif rólega undan vindi, langt í burtu. Einhver átti langa göngu í vændum. Næst áttum við að sjá 1/9 skala Land Rover á sérsmíðuðum palli detta aftur úr vélinni og svífa niður í fallhlíf. Bíllinn kom aftur úr vélinni, en fallhlífin opnaðist ekki. Bíllinn datt eins og steinn og sundraðist við hliðina á brautinni.

Við fengum líka að sjá fræga módelmenn. Jakob fékk að hitta einn mann sem hann hefur haldið uppá lengi, David Boddington, módelsmið og hönnuð til margra ára. Jakob hafði byggt AVRO 504 eftir teikningum Boddingtons og var í sjöunda himni að hitta manninn sjálfan.

Cosford 2004
Richard Rawle skoðar skemmdirnar á B25 módleinu. Það er hægt að gera við.

Allt í ein var kominn tími til að fljúga B25 módelinu hans Skjaldar. Við bárum það í startboxið og Steve sneri mótorana í gang. Vinstri mótorinn var eitthvað tregur að koma sér af stað, en náði loks snúningi og við héldum að módelið væri tilbúið. Steve gaf inn og flugvélin rann niður eftir brautinni. Um leið og hún lyfti sér, hægði vinstri mótorinn á sér og samvinna hliðarvinds frá hægri og hægri mótors á fullu urðu til þess að B25 vélin snerist snögglega til vinstri og skall aftur niður á brautina. Hún skemmdist dálítið, en þó ekki svo mikið að ekki sé hægt að gera við hana, svo hún flýgur aftur einhvern daginn.

Richard Rawle var búinn að gera ýmsar breytingar á vélarrými Mustangsins hans Skjaldar kvöldið áður og nú var hann tilbúinn í flug. Það gekk mjög vel og áhorfendur tóku honum mjög vel.

Cosford 2004
Mustanginn hans Skjaldar er engin smásmíði.