Vængsnúningur

eftir: Roy Vaillancourt
þýðing Guðjón Ólafsson

Undanfarin ár hafa margir módelvinir mínir spurt mig um vængsnúning. Hvað er það og hvernig nær maður því og af hverju notum við hann? Auðveldasta aðferðin til að ímynda sér vængsnúning er að sjá hann sem „innbyggðan vinding“ í vænginn. Með öðrum orðum, stýrða verpingu. Venjulega myndum við reyna að byggja módel eins bein og mögulegt er, sérstaklega vængi. Þetta á sérstaklega við um listflugsmódel, þar sem við viljum að módelið hagi sér eins, hvort sem það er upprétt eða á hvolfi. Það er hægt að fljúga listflug á listflugsmódelum vegna þess að þau eru hönnuð til að vera eðlislega óstöðug, eða alveg „út á brúninni“ í þeim efnum. Þess vegna eru aðferðir til að auka eðlislægan stöðugleika ekki notaðar þegar slík módel eru smíðuð og þess vegna er algengt að sjá að vængsnúningur er ekki notaður á listflugsmódelum. Skalamódel, eða líkön, aftur á móti eiga að vera stöðug til að flugmaðurinn sé rólegur á meðan hann flýgur. Ein vinsæalasta aðferðinni við að smíða inn stöðugleika er að nota vængsnúning þegar ytri vænghlutar eru smíðaðir. Sumir hönnuðir láta hann aðeins koma fram á síðustu rifjunum á vængendanum. Betri aðferð er að láta snúninginn aukast jafnt frá rótarrifinu út að vængendanum. Til dæmis: Flugvélar sem hafa væng sem er settur saman úr mörgum hlutum ættu að hafa vængsnúning aðeins í ysta hluta hans. Dæmi um slíkar vélar eru Corsair, Typhoon, Stuka, Hurricane eða Hellcat o.s.frv. Flugvélar með „heilan“ væng, eins og t.d. Mustang, Spitfire, ME-109, FW-190 o.s.frv. ættu að hafa vængsnúninginn byggðan inn í allan vænginn frá miðlínu út á endarif.

„Hvað er vængsnúningur í rauninni og hvernig virkar hann?“ er líklegt að einhver spyrji.

Vængsnúningur virkar svona: Ef vænghluti er snúinn þannig að afturbrún endarifjanna er örlítið hærri en frambrún rótarrifsins, þá í raun minnkar áfallshorn endarifjanna. Ef þessi snúningur eykst frá rót vænghlutans að enda, þá hefur hvert rif í vænghlutanum minna áfallshorn en það næsta fyrir innan það. Það þýðir að á flugi, eftir því sem loftflæðið nálgast vængendann meira, þá munu endarifin ofrísa seinna en rifin nær rótinni. Þetta er gott því það kemur í veg fyrir „endaofris“ (e. tip stall) á lítilli ferð þegar áfallshornið er venjulega mun hærra en í venjulegu flugi. Þetta hjálpar þá við að koma í veg fyrir að módelið taki snappveltu þegar maður vill það síst, t.d. í lendingu eða við rólegt framhjáflug..

Vængsnúninginn verður að „byggja inn í “ vænginn þegar hann er smíðaður. Það gerir það að verkum að báðir vænghelmingar eru með sama vængsnúning og að hann verður varanlegur. Sumir módelsmiðir ljúka smíði vængs og reyna síðan að snúa upp á hann með því að stressa vængskinnið og fá þannig vængsnúning. Slík tækni krefst þess stundum að vængurinn sé gegnbleyttur með vatni eða ammoníaki, sérstaklega ef þeir eru heilklæddir með viði. Síðan þarf að snúa upp á þá og halda þeim þannig á meðan þeir þorna. Ef vængirnir eru með opna grind, þá er plastfilman stundum hituð og snúið upp á vænginn á meðan. Hvorug þessara aðferða er örugg. Bleyttir vænghelmingar snúast aldrei jafnt og vængir með plastfilmu getað hitnað og undið ofan af sér þegar hitastig á flugstað breytist, sérstaklega þegar maður býr á hlýrri stöðum jarðarinnar eins og Akureyri. Besta aðferðin til að fá varanlegan og nákvæman vængsnúning er að smíða hann inn í vænginn frá upphafi. Hvernig gerum við það? það er afar auðvelt. Fyrst verðum við að byrja með því að teikna smávegis. Dragðu miðlínu á öll vængrif, sem byrjar á miðri frambrún og endar á afturbrúninni [sjá mynd 1] Með þessari línu er hægt að mæla rétt áfallshorn. Strikaðu þessa línu á öll rif.

Vængsnúningur: Mynd 1

Næst leggjum við aðalvængbitann niður á teikninguna. Settu rótarrif vænghlutans á sinn stað og festu það niður með prjónum eða einhverju handhægu fargi. Ekki líma það strax. Næst setur þú endarifið á bitann og heldur því á sínum stað án þess að líma. Taktu nú sama efni og þú notar í bitann eða eitthvað svipað og renndu því eins og fleyg undir afturbrúnirnar á rótar- og endarifjunum. Nú kemur vandasami hlutinn. Við viljum mæla við rótarrifið frá miðlínunni niður á borðið. Mældu bæði við frambrún og afturbrún. Þar sem rifið liggur á bitanum og bitaefnisfleygnum, þá viljum við að þessar tvær mælingar séu nákvæmlega eins. Renndu fleygnum fram eða aftur eftir þörfum þar til þær eru eins. Með þessu setjum við miðlínuna samsíða borðplötunni og rótarrifið verður með áfallshorn upp á 0 gráður miðað við borðið [sjá mynd 2].

Vængsnúningur: Mynd 2

Merktu nú á teikninguna undir rótarrifinu hvar fleygurinn þarf að vera til að ná þessu. Næst ferð þú á endarifið og endurtekur mælingarnar. Þær tölur verða að sjálfsögðu aðrar en á rótarrifinu vegna þess að endarifið er venjulega minna. En, það sem við viljum hér er að þetta rif sé með neikvætt áfallshorn miðað við rótarrifið. Neikvætt áfallshorn þýðir að frambrúnin situr lægra en afturbrúnin. Með öðrum orðum, þá situr afturbrúnin hærra en frambrúnin. Hversu mikið hærra fer eftir því hvaða áfallshorn við viljum fá. Þetta neikvæða áfallshorn við endarifið er þá sá vængsnúningur sem við fáum. Venjulega myndum við vilja fá að minnsta kosti eina gráðu, stundum allt að 2½ gráðu, eftir gerð flugvélar, en þó aldrei meira en áfallshornið sem vængurinn á að hafa þegar hann er kominn í flugvélina. Það eru tvær auðveldar aðferðir til að mæla horn vængsnúningsins. Auðveldast er að nota áfallsmæli. Hin aðferðin er að nota hornafræði [sjá mynd 3] þar sem miðmunurinn á milli mælinga á frambrún og afturbrún ákvarðar snúningshornið.

Vængsnúningur: Mynd 3

Færðu fleyginn fram eða aftur til að fá rétt neikvætt horn. Merktu þessa stöðu fleygsins á teikninguna. Þegar fleygurinn er kominn á sinn stað, þá getur þú sett niður hin rifin og þá færðu sjálfkrafa jafnan snúning á vænginn frá rót að enda. Þegar þú ert búinn að setja efri bitann á sinn stað, þá getur þú límt allt niður og sett annað sem á að vera í vængnum á sinn stað. Gerðu eins með hinn vænghelminginn og þá er öruggt að þú færð tvo vænghelminga sem báðir eru með sama snúninginn sem fer ekki úr aftur.

þú kemst fljótt að því eftir að þú ert byrjaður að þessi aðferð er tiltölulega einföld og að það er hægt að nota hana við ýmsar tegundir vængja. Það góða við þessa aðferð er að við hana þarf ekki að nota ýmis flókin og vandmeðfarin tól og tæki, en á sama tíma fáum við nákvæma og rétta vængi.

Ef þú hefur ekki notað vængsnúning áður og módelin þín hafa fallið til jarðar við óskiljanlegar aðstæður þegar þú ert að fljúga hægt, þá ættir þú að prófa þetta á næsta módeli sem þú smíðar. Þú kemst að því að módelið verður þægara í lendingum og að þú átt það lengur — vængsnúningur kemur í veg fyrir að aðstæður snúist gegn þér.

Gangi þér vel og farsælt flug.

(PS: ef einhver hefur betra orð yfir „washout“ en vængsnúning, þá er hann beðinn um að láta mig vita. gaui)