Flugreglur

Reglur vegna flugs fjarstýrðra módelflugvéla á Melgerðismelum, bæði fyrir fastvængjur og þyrlur.

  1. Aðeins þeir sem geta sýnt gilt félagsskírteini mega fljúga flugmódeli á Melgerðismelum.
  2. Þeir sem ætla að fljúga á Melgerðismelum skulu tilkynna í Akureyri Turn (s. 424 4360) að módelflug sé hafið og einnig þegar því lýkur.
  3. Ef aðrir eru þegar að fljúga skaltu láta þá vita af þér og athuga vandlega hvort einhver þeirra sé á sömu tíðni og þú áður en þú setur saman módelið þitt.
  4. Ef margir eru að fljúga, þá skal notast við tíðnitöflu félagsins. Gættu þess þá vel að kveikja ekki á sendinum þínum nema þú getir sett þína klemmu á reitinn fyrir viðkomandi tíðni.
  5. Notaðu flugbrautina aðeins fyrir flugtök og lendingar.
  6. Gættu þess vel hvort nokkur bílaumferð er á veginum á milli flugskýlisins og Hyrnu og frestaðu flugtaki til suðurs ef svo er.
  7. Ef þú ert ekki mjög öruggur að fljúga, fáðu þá einhvern reyndari til að standa hjá þér og segja til hvort nokkur er fyrir.
  8. Bannað er að standa á flugbrautinni þegar flogið er. Stattu alltaf austan við brautina og fljúgðu vestan við hana.
  9. Stattu alltaf þannig að áhorfendur og bílar séu fyrir aftan þig og módelið fyrir framan þig.
  10. Fljúgðu aldrei þannig að þú þurfir að snúa þér við.
  11. Fljúgðu aldrei lágflug yfir bílum, áhorfendum eða Hyrnu.
  12. Heimilt flugsvæðiÞegar önnur flugstarfsemi er í gangi á Melgerðismelum skulu módelflugmenn halda sig innan sérstaks gátsvæðis sem hefur verið afmarkað (Sjá teikningu). Mesta flughæð módels yfir Melgerðismelum er 300 metrar (1000 fet).
  13. Ef sviffluga er í flugi heim að flugskýlinu, þá verður þú að víkja tafarlaust, þannig að svifflugan geti lent heilu og höldnu.
  14. Ef mótorinn stöðvast á flugi láttu þá vita og þú færð forgang til lendingar.
  15. Ef þú ætlar að lenda úr suðri, gættu þess þá fyrst að hvort umferð er á veginum að Hyrnu. Ef svo er, bíddu þá með lendingu ef þess er nokkur kostur.
  16. Láttu aðra flugmenn og áhorfendur vita ef þú ætlar lenda með því að kalla það til þeirra.
  17. Þegar þú hefur lent, þá skaltu rýma flugbrautina eins fljótt og auðið er og láta aðra flugmenn vita þegar þú ert búinn að því. Taktu strax tíðniklemmuna þína af spjaldinu.
  18. Algerlega er bannað að aka flugmódeli með mótor í gangi inn í pitt. Dreptu á mótornum við hvítu merkin á akstursbrautinni.
  19. Þeir sem ætla að æfa vok-flug á þyrlum (hover) skulu gera það á svæðum merktum með grænum punktum á mynd.
  20. Flugmódeli með skjáflugsbúnað (FPV) skal flogið af tveim fullgildum félögum flugmódelfélags sem nota naflastreng. Flugmaðurinn sem stýrir módelinu á hefðbundinn máta skal vera með móðurstýringuna, skal hafa módelið stanslaust í augsýn og vera tilbúinn að taka yfir stjórn þess ef eitthvað kemur upp á. Skjáflugs flugmaðurinn skal nota aukastýringuna.
  21. Stjórnsvið módels í skjáflugi (FPV) takmarkast af sjónlínu flugmannsins með móðurstýringuna og skal að auki fara eftir því sem tilgreint er í reglu 12.
  22. Geymdu glannaskapinn heima – hann á ekki við á flugvellinum.

Reglur þessar voru samþykktar á félagsfundi 24. maí, 2012.