Aðalfundur 2016

Aðalfundur FMFA 2016 var haldinn í kaffistofu Slippsins 21. janúar 2016 kl 20.00. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Formaður setti fundinn og bauð viðstadda velkomna. Fundarstjóri var kosinn Guðjón Ólafsson (GÓ) og fundarritari Jón Guðmundur Stefánsson (JGS).

Ásmundur Karlsson (ÁK) formaður kom með skýrslu formanns, en sökum gleraugnaleysis las Sigurður Bjarni Jóhannsson (SBJ) skýrsluna fyrir hann.

SBJ gjaldkeri lagði fram reikninga til samþykktar og kynnti stöðuna eftir síðasta ár. Reikningar voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Því næst var farið í kosningu stjórnar. Þar sem engin mótframboð bárust var stjórnin endurkosin með lófataki. Í stjórn sitja þá ÁK formaður, SBJ gjaldkeri, JGS ritari, Tómas Jónsson og Finnur Helgason (FH) meðstjórnendur.

Kjartan Guðmundsson (KG) var kosinn skoðunarmaður reikninga.

ÁK var kosinn í Hyrnunefnd.

KG var kosinn í Húsnæðisnefnd.

GÓ var kosinn sem fulltrúi FMFA í Flugsafni Íslands.

GÓ var kosinn sem fulltrúi FMFA í LÍM.

Bergmundur Stefánsson og ÁK voru kosnir í Félagsheimilanefnd.

Að lokum voru önnur mál tekin fyrir.

 • SBJ talaði um ásýnd félagsaðstöðunar okkar í Slippnum, þ.e.a.s. gluggann sem snýr að götunni. Hann er forljótur með froðuplast o.fl. til að skýla áköfum smiðum fyrir sólargeislum. Var ákveðið að fyrsta verkefni Félagsheimilanefndar væri að koma upp fallegri gardínum eða öðrum búnaði.
 • Nokkrar umræður spunnust um félagsgjöldin og var ákveðið með öllum greiddum atkvæðum að hækka árgjaldið upp í 12.000,- kr.
 • Kristján Víkingsson (KV) tók fyrir nokkur mál, fyrst af þeim var fyrirspurn og umræður um unglingastarf og hvort væri hægt að fá ÍBA styrk eða annað slíkt.
 • KV spurði því næst út í Melana og hvað gera ætti við ruslið þar. FH var til svara og sagði ekkert hægt að gera.
 • KV kynnti hugmyndir um að gera útsýnisglugga á Hyrnunni sem myndi snúa til vesturs.
 • KV kom með hugmynd um “flugmódelbás” á Flugsafni Íslands, þar sem sýnt væri hvernig smíðar færu fram, flugmódel á nokkrum byggingastigum væru til sýnis sem og teikningar. Mögulega væri svo hægt að smíða þar á Safnadegi o.s.frv.
 • KV sagði frá Junkerinum sem hafði hangið uppi á Flugsafni Íslands og skýrði frá ástæðum þess að hann hefði verið tekinn niður.
 • Björn Sigmundsson lýsti því að hann væri ekki nógu ánægður með að netvirknin væri orðin svona mikið á facebook í stað þess að vera á vefsíðu okkar.
 • GÓ gerði það að tillögu sinni að FMFA myndi setja upp vefmyndavél við völlinn okkar og nota til þess gamlan farsíma eins og gert hefur verið á Suður-Íslandi. Hann lagði því til að stjórnin hefði frumkvæði að því að hafa samband við Ágúst Bjarnason og bjóðast til að ráða hann í uppsetningu. Út frá þessari tillögu spunnust líflegar umræður um vefmyndavélar og öryggismyndavélar. Ekki var kosið um þessa tillögu né aðrar sem spunnust út frá henni.
 • Almenn umræða um að setja gras við vallarsvæðið okkar og kringum pyttinn. Stungið var upp á að setja hellur þar í stað grass.
 • GÓ ræddi um námskeiðshald, kynnti stuttlega flugvélarnar frá flitetest.com. KV stakk upp á að flugfræði gæti verið hluti af námskeiði, t.d. 1 klst kynning. FH tók þetta lengra og velti fyrir sér tengingu við flugskóla, svifflugfélagið og flugsafnið. Byggja flugmódel og kynna flugstarfsemina almennt. Sagði að mögulega væri hægt að nota Grástein til að halda 1-2 helga námskeið. Spunnust ýmsar umræður um þessar hugleiðingar.

Fundi slitið kl. 21.30.

Jón G Stefánsson fundarritari.