Herlitir

Guðmundur Haraldsson gerði nú á dögunum tilraun með að sprauta módel með akrýl utanhússmálningu. Hann hefur nú skrifað grein um afrekið og hvernig hann stóð að því. Greinin er mjög áhugaverð og með henni hefur hann útbúið litaspjald (sjá neðst á þessari síðu) fyrir þá sem vilja sprauta með RLM litunum sem Þjóðverjar notuðu í seinni heimsstyrjöldinni.

Hér er greinin hans Gumma:

Málning flugvéla og þá sérstaklega herflugvéla hefur alltaf verið vandamál. Stærstu vandamálin hafa að sjálfsögðu falist í að finna réttu litina, en næst á eftir koma vandamál varðandi undirvinnu, grunnun og sprautun.

Ég hef undanfarið verið að setja saman módel af gerðinni Super Lowley, sem hefur fengið nafnið Ljúflingur á íslensku og mig langaði til að nota þetta módel til að gera tilraun með sprautun. Ég ákvað að sprauta hana í þýskum felulitum eins og flugvélar voru málaðar í seinni heimsstyrjöldinni (sérstklega vegna þess að ég er byrjaður að setja saman módel af Messerschmitt Me 109 í 1/5 skala).

Sprautun undirbúin
Ljúflingurinn á hvolfi, búið að setja límbönd yfir öll göt og
sprautan tilbúin til notkunar

Eftir dálitla leit á Internetinu og lestur góðra bóka var ljóst að ég myndi þurfa að nota liti með númerunum RLM74, RLM75 og RLM76. Til að fá þá alveg rétta fór ég inn á heimasíðu verslunar á Netinu sem kallast Discountmodels.com og keypti hjá þeim liti sem framleiddir eru af Aircraft Colors. Þetta eru litir ætlaðir litlum plastmódelum, og koma í afskaplega litlum flöskum, svo nú varð ég að fá einhvern til að blanda réttu litina í meira magni.

Málningin þekur vel
„Á ég að sprojta honnum?“ Litla sprautan á lofti. Málningin
dugði mjög vel í henni og þakti vel.

Ég fór með litaprufurnar mínar til Ingimars Friðrikssonar, framkvæmdastjóra í Litalandi á Akureyri, en hann er efnafræðingur og sérfræðingur í að blanda málningu. Hann skoðaði litina og fann út hvernig ætti að blanda þá til að fá rétta útlitið á flugvélina. Nú get ég (eða hver sem vill) farið til Ingimars þegar mig vantar lit á módel og hann rennir honum út úr tölvunni hjá sér. Ingimar lagði til að ég notaði Akrýl utanhússmálningu og ég fékk líter af hverjum lit sem ég ætlaði að nota.

Stóra sprautan
Stóra sprautan. Hún var ekki notuð nema á grunnlitinn sem
þakti næstum alla vélina.

Svo var komið að því að sprauta vélina. Ég var búinn að klæða hana með ólituðum Solartex dúk, þannig að ég slapp alveg við að grunna. Þetta gerði aftur á móti nokkrar kröfur um að dúkurinn væri sléttur og vel settur á, því það er ekki möguleiki að laga neina hnökra með málningunni. Hún sýnir hnökrana frekar betur ef eitthvað er. Málningin binst vel við dúkinn og er nægilega sveigjanleg til að geta farið á dúk sem hylur opna hluta módelsins, eins og skrokkbakið. Ef módelið væri klætt með glerfíberdúk, þá myndi ég nota grunn sem hentaði akrýl málningunni.

Sprautun
Þeta er allt að koma: síðustu strokurnar og felulitirnir koma
vel út

Til að sprauta ákvað ég að nota annars vegar bílalakkssprautu með hálfs líters könnu og hins vegar litla hobby-sprautu frá Humbrol, sem tekur nokkra millilítra af málningu. Það sem mér fannst best við akrýl málinguna var að hún er lyktarlaus,vatnsþynnanleg og mjög fljót að þorna, auk þess að vera ódýr. Til þess að hægt sé að sprauta henni, þá þarf að þynna hana mikið eða um það bil 3 hlutar málning á móti 1 hlut af vatni. Hún þarf að verða nokkuð vel fljótandi, svona svipuð og skyrmjólk eða þannig. Í Húsasmiðjunni keypti ég þrýstistilli til að tengja við sprauturnar. Þannig gat ég líka tengt sprauturnar báðar við hvaða loftpressu sem er án þess að eiga á hættu að þrýstingurinn verði of mikill. Ég notaði þrýsting upp á ca 2 bör og reyndist það alveg sæmilega. Ég fullyrði að það sé hægt að sprauta þessa málningu við þennan þrýsting hvar sem er án þess að sóða neitt út.

Flottir felulitir
Aukahlutirnir komnir á, byssurnar hlaðnar og flugmaðurinn í
sætinu. Hann er beinagrind!

Ég byrjaði á því að setja flugvélina á hvolf með vænginn á og notaði stóru sprautuna til að úða RLM76 Lichtblau litnum á botn hennar og upp eftir skrokkhliðum, undir allan vænginn og stélið. Í þetta þurfti tvær umferðir. Málningin er mjög fljót að þorna og þegar hún var orðin snertiþurr, þá sneri ég vélinni við og sprautaði RLM75 Grauviolett litnum á allan efrihluta vængsins og ofan á skrokkinn og niður á hann miðjan og lét það þorna. Núna notaði ég litlu sprautuna, aðallega vegna þess að ég vildi búa til mynstur, sem heppnaðist fullkomlega. Litla sprautan úðar ekki málningunni á mjög takmarkað svæði og það er mjög auðvelt að teikna felulitina á með henni. Svo kom síðasti liturinn, RLM74 Graugrün, sem ég sprautaði í breiðum ská röndum á efri hluta vélarinnar og vængi. Að lokum úðaði ég bletti og bólstra á hliðar skrokksins til að fá svipað felumynstur og maður sér á myndum af Bf 109.

Sprautun á heilli flugvél með akrýl málningu, tvær umferðir, tók mig um átta klukkutíma á góðum laugardegi, mikið skemmri tíma en ég hafði þorað að vona. Ef mér lá á að sprauta næstu umferð eða næsta lit, þá gat ég notað hitablásara til að flýta þornun án þess að það kæmi niður á gæðum málningarinnar. Mér tókst meira að segja að láta tauma hverfa með því að blása á þá með blásaranum. Daginn eftir fór ég heim með vélina, hæstánægður með árangurinn.

Guðmundur Haraldsson
10-11-2004.

Þýskir herlitir notaðir í seinni heimsstyrjöld.

Hér fyrir neðan er listi yfir algengustu herliti sem notaðir voru á þýskar herflugvélar í seinni heimsstyrjöldinni, ásamt sýnishornum af þeim. Athugaðu að þeir litir sem sjást á tölvuskjánum er þó bara nálgun.

RLM02 GRAU

grár

Notaður innan í þýskar sprengjuflugvélar og orrustuvélar, hjólahólf o.s.frv., (í BF 109 vélum var skipt yfir í RLM66 innan í stjórnklefum um lok árs 1940). Notaður mikið í feluliti ofan á flugvélar ásamt RLM 71 og í bletti og depla á skrokk. Notaður í stjórnklefum sprengjuvéla allt stríðið.

RLM04 GELB

gulur

Líklega algengasti liturinn sem notaður var í kóða, tölur, nöfn, vængenda, skrokkbönd, undir vélarhlífar, hliðarstýri o.s.frv. ef RLM21 hvítur og RLM22 svartur eru undanskildir.

RLM21 WEIß

hvítur

Mikið notaður í merkingar og skraut á flugvélar. Einnig notaður ofaná flugvélar ásamt mörgum öðrum litum til að fá vetrarliti.

RLM22 BLACK

svartur

Sjá RLM04. Notaður mikið á orrustuvélar í næturflugi. Aðal litur á spinnera.

RLM23 ROT

rauður

Notaður fyrir herstjórnarnúmer og merkingar, neðan á vélarhlífar, skrokkbönd, hliðarstýri og stundum á spinnera.

RLM24 BLAU

blár

Notaður á sama hátt og RLM23

RLM25 GRÜN

grænn

Notaður á sama hátt og RLM23

RLM65 HELLBLAU

ljósblár

Neðra borð á flestum sprengjuflugvélum og einnig á orrustuvélar þangað til seint á árinu 1940 eða snemma árs 1941, en þá var skipt yfir í RLM76. Einn mikilvægasti Lutfwaffe liturinn.

RLM66 SCHWARZGRAU

svar-grár

Notaður innan í stjórnklefa á orrustuvélum og sumum sprengjuvélum frá árinu 1941. Einnig stundum notaður á gluggaramma.

RLM70 SCHWARZGRÜN

svar-grænn

Notaður á efra borð flugvéla, að mestu með RLM71 og RLM65. Aðallitur á neðra borð og á loftskrúfum Luftwaffe flugvéla. Notaður til að búa til bletti og depla.

RLM71 DUNKELGRÜN

dökkgrænn

Notaður svipað og RLM70 en hafði þó meiri not. Notaður með RLM02 á orrustuvélar á árunum 1940 og 1941. Mikið notaður í bletti og depla.

RLM74 GRAUGRÜN

grá-grænn

Notaður í feluliti á efra borði orrustuflugvéla, sérstaklega með RLM75 og RLM76 á neðra borði. Notkun í verksmiðjum hætt upp úr miðju ári 1944. Mikið notaður í bletti.

RLM75 GRAUVIOLETT

grá-fjólublár

Líklega mest notaður allra lita í feluliti á efra borði Luftwaffe orrustuvéla. Sjá RLM74 og RLM76. Líka mikið notaður með RLM82 og RLM83 á síðustu mánuðum stríðsins.

RLM76 LICHTBLAU

fölblár

Aðal litur á neðra borð orrustuvéla (1941-1945) og einnig á sumum sprengjuvélum. Einnig notaður sem heil-litur á nætur-orrustuvélar, en þá voru blettir og deplar málaðir á með RLM75 (1943-1945). Notaður í bletti og depla á sumum sprengjuvélum yfir 70/71 eða 72/73 feluliti.

RLM78 HELLBLAU

ljósblár

Notaður á neðra borð flugvéla sem staðsettar voru í eyðimörkinni eða við Miðjarðarhafið. Einnig notaður á austurvígstöðvunum á flugvélum sem áttu að fara til Afríku, en voru sendar til Rússlands eftir að Þjóðverjar töpuðu eyðimerkurstríðinu.

RLM79 SANDGELB

sandgulur

Notaður á efra borð flugvéla í eyðimörkum Afríku. Ekki má rugla honum saman við ítalska Giallo litinn sem notaður var á þýskar flugvélar sem fóru fyrstar til notkunar í eyðimörkinni. Sjá RLM78 og RLM80 til að fá heildarsvið lita á eyðimerkurvélum.

RLM80 OLIVEGRÜN

olívugrænn

Notaður á efta borð flugvéla sem staðsettar voru í eyðimörkinni og depla og bletti felulita. Sjá frekari upplýsingar hjá RLM78 og RLM79.

RLM81 BRAUNVIOLETT

brúnfjólublár

Notaður í feluliti seinni hluta stríðsins (1944-1945) að mestu með RLM82 eða RLM83 og RLM76 á neðra borði.

RLM82 LICHTGRÜN

fölgrænn

Notaður í feluliti seinni hluta stríðsins með RLM81 eða RLM83 og RLM76 á neðra borð.

RLM83 DUNKELGRÜN

dökkgrænn

Sjá RLM81 og RLM82. Þessir þrír litir, sem voru notaðir í feluliti á efra borð seinni hluta stríðsins gáfu sumar skemmtilegustu litasamsetningarnar á Luftwaffe flugvélar.

RLM84 GRAUBLAU

gráblár

Þetta er umdeildasti litur allra Luftwaffe litanna. Hann var mest notaður síðustu mánuði stríðsins og þá aðallega á neðra borð FW190 D-9, BF 109 K, Me 262 og hugsanlega annarra flugvéla. Þessi litur er ekki nefndur í opinberum Luftwaffe handbókum, en var örugglega notaður engu að síður. Til eru margar litmyndir af flugvélum með þennan lit og hafa þær verið byrtar nýlega til að sanna tilveru hans. Það er mögulegt að þessi litur (sem hefur verið til í þrem, eða jafnvel fleiri blæbrigðum) sé afleiðing af því að verið var að nýta málningu sem var til þegar lítið sem ekkert annað var handbært. Hugsanlega var byrgðum af RLM65 eða RLM76 blandað við RLM02, 077, 02 eða aðra liti til að mála þær flugvélar sem verið var að framleiða.