Hér fer á eftir frásögn af módelflugkomunni sem fengin er „að láni“ hjá Sverri Gunnlaugssyni á Fréttavef flugmódelmanna. Þar er einnig að finna fleiri myndir.
Ljósin koma flott út á spöðunum |
Nokkrir grallarar voru snemma á ferðinni og skruppu út á Mela á föstudagskvöldinu til að gera tilraunir, meðal annars með ljós á endanum á þyrluspöðum. Stemmningin á Akureyri var frábær á laugardaginn og var gaman að sjá hversu vel FMFA hafði sett svæðið upp en ekki er hægt að neita því að það hafi minnt örlítið á Cosford en stemmningin var betri ef eitthvað var. Í staðinn fyrir að vera á flugmódelsvæðinu þá var sýningarsvæðið sett upp neðar á Melunum eða á svifflugssvæðinu. Þeir allra hörðustu voru mættir á svæðið fyrir 9 til að koma sér fyrir og setja saman vélarnar sínar. Í kringum hádegi þá voru flestir flugmenn mættir á svæðið og voru hátt í 60 flugmódel á svæðinu þegar mest var.
Guðjón stóð vaktina í sendagæslunni og leysti það vandasama verk mjög vel og komust menn oftast nær í loftið þegar þeim hentaði. Stöku sinnum var gert hlé á almennu flugi til að koma að sérstökum módelum. Öll flugmódelfélögin áttu sína fulltrúa þarna á sýningunni þó sum hafi verið fáliðari en önnur en óhætt er að segja að Akureyrarflugkoman sé stærsti viðburðurinn í íslensku flugmódelflórunni.
Módelmenn að byrja að koma sér fyrir |
Laugardagurinn gekk stóráfallalaust fyrir sig en þó fóru 2 módel niður með látum. Það fyrsta var á flugi innan skipulagðs sýningarsvæðis þegar flugmaðurinn missti allt samband og fór það beinustu leið niður ca. 500 metra frá fluglínunni og var það úrskurðað látið við komuna í pittinn. Seinna módelið flaug aftur á móti út fyrir sýningarsvæðið og aftur fyrir áhorfendalínur og bílastæðin og fór beinustu leið niður á sjálfan módelvöllinn og var ekki mikið eftir af því. Já þetta er hola í jörðinni. En í það skiptið ruglaðist flugmaðurinn á afstöðu módelsins með þessum afleiðingum.
Módelið brotlenti um hálftíma eftir að skipulagðri dagskrá lauk og við getum þakkað æðri máttarvöldum að engin skyldi vera á svæðinu þar sem módelið kom niður en við sluppum með skrekkinn í þetta skipti. Þetta sýnir en og aftur mikilvægi þess að fljúga innan skilgreinds sýningarsvæðis. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef einhver hefði verið fyrir módelinu þegar það kom niður.
Extra 300S var valin athyglisverðasta módelið 2004 |
Einnig var sú nýbreytni tekin upp að með hverjum flugmanni þurfti að vera einn fylgdarmaður honum til halds og traust við flugbrautina og kom það bara nokkuð vel út og sjálfsagt mál að skoða það hvort þetta sé ekki eitthvað sem er komið til að vera í stærri sýningum og mótum.
Eftir að formlegri sýningardagskrá lauk þá tók við grillið hjá þeim Norðanmönnum og var það ljúffengt að venju. Eftir að menn höfðu borðað á sig gat þá fóru þeir allra hörðustu aftur út á braut að fljúga og voru menn að langt fram eftir kvöldi.
Á sunnudagsmorgni var veðrið það gott að menn voru komnir út á völl upp úr kl.9 til að endurtaka leikinn og var flogið langt fram á kvöld.
Aðsóknin hefur oft verið örlítið betri en sjálfsagt getum við kennt Handverkssýningunni og Fiskihátíðinni um að umferð gesta um svæðið skyldi vera minni en oft áður en það skiptir ekki öllu máli þar sem að við skemmtum okkur konunglega í góðra vina hópi og munum endurtaka leikinn að ári liðnu.