Aðalfundur FMFA 2014.
Fundurinn var haldinn í Flugsafni Íslands laugardaginn 1. mars kl 11. Mættir voru 11 félagar. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Formaður setti fundinn og bauð viðstadda velkomna. Fundarstjóri var kosinn Árni Hrólfur Helgason (ÁHH) og fundarritari Jón Guðmundur Stefánsson (JGS).
Guðjón Ólafsson (GÓ) formaður las skýrslu formanns fyrir árið 2013 og var skýrslan samþykkt með lófataki.
Sigurður Bjarni Jóhannsson (SBJ) gjaldkeri fór yfir reikninga ársins 2013 og lítur staðan vel út. Hann taldi því enga ástæðu til að hækka félagsgjaldið og var vel tekið í það. Það telst því óbreytt næsta árið, kr. 10.000,-. Einnig var nefnt að leigan í Slippnum hefði hækkað lítillega en þar sem félagið væri enn réttu megin við núllið eftir innheimtu borðaleigu væri ekki ástæða til að hækka borðaleiguna. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.
Næst var komið að kosningu formanns. GÓ hafði ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram, en enginn hafði enn boðið sig fram í hans stað og ekkert framboð kom fram á fundinum. Í framhaldi af því var ákveðið að fresta þessum dagskrárlið og boða til framhalds aðalfundar eftir 2 vikur til að gefa félagsmönnum færi á að liggja undir feldi varðandi formannsframboð. Þessi frestun var samþykkt einróma og var það sett í hendur stjórnar að boða til framhaldsfundarins með löglegum hætti (um framhaldsfundinn má lesa neðst á þessari síðu).
Að öðru leyti var stjórn kosin með óbreyttu sniði, og er stjórnin því:
(Guðjón Ólafsson formaður, þangað til nýr maður finnst)
Sigurður Bjarni Jóhannsson gjaldkeri
Jón Guðmundur Stefánsson ritari
Tómas Jónsson meðstjórnandi
Ásgrímur Karlsson (ÁK) meðstjórnandi
Einnig var Finnur Helgason (FH) kosinn varamaður í stjórn.
Kjartan Guðmundsson var kosinn sem skoðunarmaður reikninga.
Ásgrímur Karlsson situr áfram í Hyrnunefnd.
Guðjón Ólafsson situr áfram í stjórn Flugsafnsins og var Sigurður Bjarni Jóhannsson valinn varamaður í stjórn.
Kjartan Guðmundsson var áfram valinn vallastjóri Kassos.
Um önnur embætti var ekki rætt og menn því sjálfvaldir áfram í þau.
Ritari tók að sér að láta Flugsafnið vita af þessari hlutverkaskipan.
Næst var rætt um lagabreytingar. GÓ stakk upp á viðbót við 4. grein laganna sem er svohljóðandi:
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert og boðaður með viku fyrirvara.
Stungið var upp á að bæta við „með rafrænum hætti“ aftan á seinni setninguna. Þannig verður þessi grein:
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert og boðaður með viku fyrirvara með rafrænum hætti.
Þessi tillaga var samþykkt.
Því næst var 11. greinin rædd nokkuð þar sem ljóst þykir að henni er ekki framfylgt. Þykir greinin þó góð og var því ákveðið að vísa því til stjórnar að framfylgja henni frekar með einhverjum hætti en að breyta greininni.
Að lokum voru önnur mál á dagskrá og voru þau nokkur tekin fyrir.
- ÁHH stakk upp á því að stjórn stæði fyrir því að 1 dag í mánuði yrði formlegri fundur heldur en tíðkast hefur. Dæmi gæti verið að skoða myndbönd, fara yfir teikningar og annað slíkt. Myndi slíkt ríma vel við að framfylgja 11. grein félagslaganna. Tóku menn almennt vel í þessa tillögu.
- SBJ stakk upp á því að félagið keypti flughermi. Bergmundur Stefánsson (BS) er í dag að lána sinn hermi og sagði að það stæði áfram til boða, og FH sagðist einnig eiga Reflex hermi sem væri ekki í notkun sem hann gæti lánað. ÁK á tölvu sem hann er tilbúinn að lána félaginu. Talað var um að hægt væri að leyfa fólki að prófa herminn t.d. á flugdögum Flugsafnsins. Niðurstaðan var sú að gefa stjórninni heimild til að skoða málið og finna viðunandi lausn.
- Sveinn Ásgeirsson kom inn á notkunartölfræði á Melunum. Þar kom í ljós að líklegast eru flugmódelmenn það félag sem notar Melana hvað mest. Þó vantar umtalsvert upp á að menn séu nógu duglegir að skrá sig í gestabókina. All nokkur umræða spannst í framhaldinu um flug á svæðinu, flugturna og tilkynningaskyldu. Lögð var áhersla á að menn hringdu inn í flugturn þegar þeir væru að fljúga. Til að auka líkurnar á því verður settur upp miði inni í skúrnum okkar með símanúmeri í turn.
- GÓ kynnti stöðuna á LÍM (Landssambandi íslenskra módelmanna) og var töluvert rætt um stöðu mála hjá ráðuneyti og samgöngustofu og nauðsyn þess að hafa samtök eins og LÍM til að tala máli okkar þar. Hingað til hafa formenn verið fulltrúar félaganna í LÍM, en GÓ bauðst til að halda áfram starfi sínu þótt hann léti af formennsku og var það samþykkt.
- FH sagði frá því að hann hefði fengið tilboð í tryggingar fyrir Hyrnu og að húsið væri nú vel tryggt.
- JGS sagði frá færslu vefs frá Advania til Sverris Gunnlaugssonar og hvað þyrfti að gera til að skrá sig inn á vefinn ef félagar vilja setja inn á hann efni.
- Rætt var um uppsetningu á vefmyndavél á Kassos. Þótt ýmsir kostir séu í stöðunni var vel tekið í að setja upp myndavél og sólarsellu í þeim stíl sem Ágúst Bjarnason hefur talað um á Fréttavefnum.
Fundi var slitið kl 12.35 með fyrirvara um framhald aðalfundar eftir 2 vikur.
Framhald aðalfundar 16. mars 2014.
Fundurinn var haldinn í kaffistofu Grasrótar sunnudaginn 16. mars kl 14.30. Mættir voru 12 félagar. Á dagskrá var kjör nýs formanns og skyld mál. GÓ setti fundinn og bauð viðstadda velkomna og afhenti ÁHH fundarstjórn.
ÁHH kynnti Ásgrím Karlsson sem frambjóðanda í formannsembættið og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
Þar sem ÁK hafði verið valinn í stjórn vantaði annan meðstjórnanda í hans stað. SBJ stakk upp á Finni Helgasyni (varamanni í stjórn) í hans stað og var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
GÓ stakk upp á að Ólafur Njáll Óskarsson tæki við hlutverki FH sem varamaður í stjórn og var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Ný stjórn er því eftirfarandi:
Ásgrímur Karlsson formaður
Sigurður Bjarni Jóhannsson gjaldkeri
Jón Guðmundur Stefánsson ritari
Tómas Jónsson meðstjórnandi
Finnur Helgason meðstjórnandi
Staðfest var að GÓ yrði áfram fulltrúi FMFA í LÍM.
Önnur mál voru lítillega tekin fyrir.
- FH spyr hvort FMFA ætti að greiða eitthvað fyrir aðstöðuna sem við höfum í Grasrót þar sem þetta er ekki aðeins smíðaaðstaða þeirra sem borga heldur einnig miðstöð þar sem allir félagsmenn hittast og spjalla. SBJ sagði frá því að í upphafi hafi félagið borgað sem samsvarar 1 borði en þegar greiðandi mönnum fjölgaði hafi verið ákveðið að hætta því. Engin ákvörðun var tekin um breytingu á fyrirkomulagi.
- ÁK og FH ræða um flughermi. Stemmningin á fundinum var sú að félagið ætti að íhuga alvarlega að kaupa RealFlight hermi. BS bauðst til að selja FMFA herminn sinn sem er nú í notkun hjá félaginu. Stjórn fékk umboð til að skoða valkostina og taka ákvörðun um þetta mál.
Fundi slitið kl 14.45.
Jón G Stefánsson fundarritari.