X-it

Módel: X-it Úr auglýsingu Irvine Ltd.
Framleiðandi:

Irvine Ltd,
England
http://www.irvineltd.com/

Hönnuður: Steven Atherton
Vængsnið: RSB 11
Vænghaf: 1.200 mm
Vængflötur: 32,9 dm²
Þyngd: 500 gr
Mótor: enginn
Fjarstýring: 2 rásir, með mixer

Inngangur

Úr kassanum
Þetta kom uppúr kassanum

Ég var búinn að sjá myndir af orrustusvifflugunni X-it frá Irvine í bæklingum hjá Kjartani og Bjarna í módelbúðinni á Brekkusíðu og fannst hún bara nokkuð flott. Það sem sérstaklega vakti áhuga minn á henni voru íslensku fánalitirnir á myndinni. Ég bað Kjartan um að panta svona handa mér og fékk síðan konuna mína til að gefa mér hana alveg óvænt í jólagjöf (sniðugur!)

Ég eyddi ánægjulegu aðfangadagskvöldi við að lesa leiðbeiningarnar (sem eru ekkert sérlega langar eða ítarlegar – kem að því síðar) og utaná kassann. Þar stendur:

  • Fljótsmíðuð, aðeins 1,5 til 2 tímar
  • Lágmarks vesen, hámarks ánægja
  • Fullkomin hang-orrustuflugvél
  • Trefjalímband og litalímbönd fylgja
  • Hæf til listflugs
  • Þarf aðeins einföld verkfæri
  • Þarf ekkert lím
  • Næstum óbrjótandi EPP frauðplast (EPP = Expanded Polypropylene)
  • Tilskornir og formaðir stýrifletir
  • Flýgur hratt og stöðugt
  • Tilskorin hólf fyrir stýring

Margar af þessum staðhæfingum um fluguna eru réttar, aðrar ekki alveg eins réttar, en við komum að þeim á eftir.

Þegar ég síðan opnaði kassann kom í ljós að það var ekkert sérlega mikið í honum. Það sem er mest áberandi eru tveir vænghelmingar sem hafa verið steyptir í móti og í þá eru steypt hólf fyrir stýringuna. Tvær balsaspýtur eru stýrifletirnir og þrjár rúllur af límbandi, breiðasta trefjalímband sem ég hef séð (rúmlega 7,5 sm á breidd) og tvö litalímbönd. Í mínu tilfelli var annað gult og hitt appelsínugult. Dálítil vonbrigði það, því það er ekki hægt að búa til íslenska fánann með þessum litum. Mér skilst að það séu mismunandi litir í hverjum kassa: maður bara fær þá liti sem maður fær. Í plastpoka voru tveir vænguggar úr coroplasti, fjögur lítil lok úr sama efni, tvö stýrishorn ásamt viðeigandi skrúfum og tvær stýrisstangir. Nákvæmlega það sem þarf til að fullsmíða módelið. Nei, reyndar ekki. Það var einni skrúfu of mikið;-)

Steypumerki
Steypunibbur á vængnum

Undirbúningur

Ég byrjaði á því að skoða vænghelmingana nákvæmlega. Þá kom í ljós að þegar þeir voru steyptir, þá komu á þá hinar og þessar nibbur og merki úr steypumótunum. Mér datt í hug að betra væri að pússa þetta af, svo ég renndi með sandpappír nr 150 yfir allan flöt vænghelminganna og á brúnirnar. Eftir á að hyggja dettur mér í hug að flestar þessara nibba hefðu ekki gert neitt af sér: límbandið kemur til með að hylja þær. Steypumerkin á frambrúninni, afturbrúninni og vængendum og -rótum, aftur á móti urðu að fara. Þarna varð ég að fara varlega, því vænhelmingarnir eru þunnir og mega ekki við miklum átökum, sérstaklega í rótinni.

Samsetning

Það þurfti að skera plast burt til að koma græjunum fyrir
Tækin komin í, næstum

Hallastýrin límast á með límbandi
Hallastýrin límd á – fyrst á röngunni – svo á réttunni

Samsetning á þessum væng er einföld: maður bara leggur hann niður á hvolfi, límir hann saman með þrem bútum af fíberlímbandi, veltir honum síðan við og límir þrjá búta af límbandi hinum megin. Einfalt, fljótlegt og hreinlegt. Ekkert lím! Eftir að hafa sett saman módel í miklu fleiri ár en ég vil muna, átti ég erfitt með mig að draga ekki upp trélímstúpuna og gluða slatta af lími á vængræturnar áður en ég skellti þeim saman. „Er alveg öruggt að þetta haldi?“ rann í gegnum huga mér á meðan ég klippti niður fíberlímband til að setja saman fljúgandi væng. Hmm?

Þá var að setja tækin í. Þegar vænghelmingarnir eru steyptir var gert ráð fyrir tækjunum í þá, en það var ekki gert ráð fyrir mínum tækjum! Ég þurfti að stækka hólfin fyrir rafhlöðurnar og móttakarann til að koma þeim oní og líka skera smá viðbætur á götin fyrir stýrivélarnar til að fá þær oní án þess að skemma snúrurnar í þær. á myndinni hér til hliðar sést plastið sem ég þurfti að skera burt. Að lokum eru coroplast lokin sett ofan á rafhlöðurnar og stýrivélarnar. Þau eru nákvæmlega klippt til svo þau passa í hólfin. Ég ætla að hafa aðgang að móttakaranum, þannig að hann fer ekki í fyrr en síðar. Það verður enginn rofi í vængnum, og þess vegna þarf ég að geta tekið rafhlöðurnar úr sambandi úr móttakaranum.

Hallastýrin

Næst komu hallastýrin. Leiðbeiningar um hvernig á að setja þau á voru frekar í loðnari kantinum, svo ég notfærði mér þekkingu mína á módelsmíði. Hugsanlega hef ég fengið sterkari festingar fyrir stýrin fyrir vikið, en ég held að þær hefðu orðið nógu sterkar samt. Ég nefnilega límdi stýrin bæði að ofan og neðan, en í leiðbeiningunum stendur að það sé nóg að líma bara að ofan. Alla vega, ef maður gerir bæði að ofan og neðan eins og ég gerði, þá verður maður að byrja að neðan.

Ég byrjaði á því að taka límbandsrenning jafn langan og stýriflöturinn og líma hann neðan á flötinn. Síðan lagði ég stýriflötinn ofan á vænginn þar sem hann átti að vera og lét límbandið grípa niður á afturbrún vængsins. Þá gat ég látið stýriflötinn dingla niður eins langt og hann gat farið og lagt aðra ræmu af límbandi á efri brún hans og upp á vænginn (renndu músinni á myndina, þá sést það). Ef límbandið er fyrst sett ofaná og síðan neðaná, þá hreyfist stýrið ekki vegna þess að það er of þétt límt uppað afturbrún vængsins. Hvernig veit ég það? heyri ég að þú spyrð. Þú mátt geta þrisvar!.

Trefjalímbandið

Trefjalímband á vængnum
Vængurinn vafinn með trefjalímbandi

Það er ekkert langt síðan ég uppgötvaði trefjalímband, en síðan hef ég notað það mikið, sérstaklega vegna þess að þegar búið er að líma eitthvað upp með því, þá dettur það ekki niður aftur. Annar kostur við trefjalímband er hversu hrottalega sterkt það er: maður slítur ekki ræmu af trefjalímabndi með berum höndum!. Rúllan sem fylgir með X-it er sú allra breiðasta sem ég hef séð: sjö og hálfur sentimetri.

Trefjalímbandið er nú lagt á vænghelmingana, fyrst að ofan og síðan að neðan, þannig að trefjarnar liggi frá rótinni út á endana. Þetta tekur smá tíma og best að vanda sig, því límbandið hnökrar auðveldlega. Maðúr má líka passa sig að strekkja límbandið ekki neitt, bara leggja það niður, því annars byggir maður vinding í vænginn. Þegar þetta er búið er vængurinn, sem áður var ansi sveigjanlegur, orðinn stífur og til í allt.

Litalímbandið

Litalímband á vængnum
Vængurinn vafinn með litalímbandi

Þá var komið að því að setja lit á vænginn, eða klæða hann eins og það heitir venjulega. Ef þú vilt, þá má sleppa því, þá verður vænguirinn bara hvítur, en ég horfði lengi á appelsínugula og gula límbandið og fann mér (að ég held) smekklega litasetteringu.

Þegar ég byrjaði að leggja appelsínugula límbandið runnu á mig að minnsta kosti tvær grímur, ef ekki fleiri: límbandið er örþunnt, rifnar auðveldlega um leið og maður byrjar að klippa það og þekur ekki neitt. Eins og sést á myndinni hér til hliðar, þá koma dekkri órans línur þar sem límbandsræmurnar skarast. Þar að auki virtist það ekki límast neitt sérlega fast, því ég gat lyft því upp og lagt það aftur ef staðsetningin var ekki alveg rétt. Þetta síðasta reyndist seinna ekki rétt. því eftir smá tíma er límbandið orðið svo fast að maður nær því ekki upp aftur nema skilja litinn eftir á stöku stað.

Með lagni gat ég fengið límbandið til að rifna lítið og það virtist festast sæmilega vel með tímanum. Það sem fór núna að renna upp fyrir mér var að ég var búinn að vera næstum fjóra tíma að byggja módel sem átti að taka einn og hálfan og ég var rétt að byrja á klæðningunni. Tímamörkin á kassanum voru greinilega ekki af réttasta taginu.

Litalímband á vængnum

Litalímband á vængnum

Vængurinn vafinn með litalímbandi – ofan og neðan

Gula límbandið kom næst á og þá kom í ljós að þessi ljósari litur þekur mikið betur, eða öllu heldur dökknar ekki þar sem hann skarast, þannig að samskeytin sjást ekki eins vel. Þessi aðgerð að líma límband á vænginn tók mjög langan tíma. Límböndin eru ekki mjög breið og maður þarf að vanda sig að leggja þau á svo þau hnökri ekki. Vegna þess hve erfitt var að klippa þau eða skera rétt var engin leið að fá hreina línu þar sem þau enduðu við fram- og afturbrún vængsins, þannig að ég ákvað að litasamsetningin neðan á vængin væri frekar á lengdina, heldur en breiddina eins og ofaná. Þá gat ég lagt heila límbandsrönd eftir frambrún og afturbrún vængsins og fengið hreina línu. Að lokum dró ég fram 2mm rautt strípulímband sem ég átti og lagði á litaskilin ofan og neðan á vængnum. Þetta gerir litaskilin ákveðnari og heildarmyndin verður flottari (sniðugt!)

Stýrin

Stýrihornin komin á
Stýrihorn og stangir komnar á sinn stað.

Með í kassanum fygja tvö falleg horn og festiplötur ásamt fimm skrúfum (einni ofaukið). Það fylgja líka tvær nákvæmlega stilltar stýristangir með setu-beygjum og klemmum. Það eina sem þarf að gera er að festa hornin og setja stangirnar á. Þarna veður kassaáletrunin í villu, því þegar búið er að skrúfa hornin á, þá standa skrúfurnar niður úr festiplötunni nokkra millimetra. Það er, jú, hægt að nota töng til að klippa skrúfurnar af og síðan nota þjöl til að slétta þær, en Dremel fræsari með viðeigandi skífu væri enn betri. Hvorugt af þessu er það sem ég tel sem einföld verkfæri.

Þegar stýristangirnar eru komnar á sinn stað, þá eru klemmurnar skrúfaðar inn á stangirnar þangað til stýrin hafa lyfst upp um 3 millimetra. Þetta er kallað „reflex“ á erlendum málum og er algerlega nauðsynlegt á svona væng. Þetta gerir í raun sama gagn og stélflöturinn á hefðbundnum módelum, að halda á móti vængnum sjálfun og tilhneygingu hans til að fara niður að framan.

Vængendarnir

Vængendaugginn
Ugginn settur á vængendann

Á vængendana eru settir uggar úr coroplasti sem gefa módelinu ansi mikinn svip og gera það stöðugra á flugi. Uggarnir eru tilsniðnir og það þarf bara að skera tvær litlar rifur í þá og líma þá á endana með trefjalímbandi. Þetta kann að virðast léttvæg festing, en miðað við aðrar límingar með trefjalímbandi, þá er þetta að líkindum allt í lagi. Ég býst við að coroplast ugginn myndi fyrr rifna og detta af en að límbandið losni.

Jafnvægispunkturinn

Og nú kom upp vandamál: í leiðbeinigum segir (í lauslegri þýðingu): „Módelið ætti að vega salt á punkti sem er staðsettur 165 – 190mm aftur frá frambrúninni.“ svo mörg voru þau orð. En þá vaknar spurningin „Hvar á frambrúninni?“ Frambrúnin er aftursleikt og það er ekki sama hvar maður mælir. Eftir því sem maður fer utar á afturbrúnina, því aftar ná 165 til 190 millimetrar. Ef gengið er út frá því að mæla skuli frá nefinu á módelinu, þá lendir þetta svið á svæði sem sýnt er á myndinni hér til hliðar. Miðað við þetta, þá þarf að setja rúma tvo hellinga af blýi í nefið á módelinu til að það haldi jafnvægi. Það er ekki gott!

Þyngdarpunkturinn merktur
Þyngdarpunkturinn ??

Ég ætla að setja staðsetningu þyngdarpunktsins aðeins á hakann þangað til ég er búinn að ná sambandi við Irvine Ltd. Þangað til verður módelinu ekki flogið. Gallinn er bara sá að Irvine vill ekki að maður sendi þeim tölvupóst. Það er enginn e-mail linkur í a síðunum þeirra. Kannski slæ ég á þráðinn til þeirra, hver veit.

Flug

Loksins náði ég að prófa að fljúga módelinu. Við fórum einn góðan veðurdag í mars og prófuðum að kasta X-it upp í vindinn á Melgerðismelum og síðan fram af smá kanti sem er rétt fyrir norðan flugbrautina.

Svif
Módelinu kastað upp í vindinn á Melunum

Í fyrsta kastinu kom í ljós að þyngdarpunkturinn var alveg á réttum stað fyrir þetta léttan vind, semsagt módelið var rétt ballanserað. Ég hafði greinilega náð réttum þyngdarpunkti. Hún sveif rétt og létt og ég gat hallað henni og beygt örlítið. Myndin hér til hliðar sýnir hana svífa skemmtilega framhjá. Spurningin er hvort þessi þyngdarpunktur er réttur þegar komið er í hangið. Það eru ekki miklir möguleikar að bæta ballest í til að færa þyngdarpunktinn framar, nema einna helst að líma smá blý með trefjalímbandinu góða undir frambrúnina. Sjáum til.

Þá var næst að kasta henni framaf brekkubrún og sjá hvernig hún hangir. Norðantil á Melunum er lágur kantur sem gefur lyft í sterkum vindi. Því miður var ekki sterkur vindur þegar við ætluðum að prófa, en við létum það ekki á okkur fá.

Aðal vandamálið við að kasta svona módeli er að það er ekki neitt sem hægt er að halda í og fá út kröftugt kast. Eftir nokkrar tilraunir kom í ljós að best er að halda utanum nefið (á módelinu), taka nokkur sterk skref og kasta af öllum mætti. Með því fékkst módelið af stað á flughraða og það náði strax sæmilegri hæð.

Í hangi
Lítið hang, en X-it flaug flott!

Það kom líka í ljós að stýrishreyfingarnar sem ég er með á minnstu stillingu eru algert lágmark, ég setti á hærri stillinguna fyrir hæðarstýrið strax og fékk góða svörun. Ég ætla að bíða með stærri hreyfingar á hallastýrunum þar til ég fæ sterkara hang.

Módelið lætur afar vel að stjórn og með litlum hreyfingum á stýrunum hallar það sér hægt og gætilega og það þarf bara smá upp á hæðarstýrið til að fá það til að beygja. Hangið sem við fengum var alveg á mörkunum, þannig að X-it hefði átt að sýna alla ljóta ávana strax, en ég varð ekki var við neitt slíkt. Ofrisið var rólegt og í raun gerðist ekki neitt, hún bara „mössaði“, eins og sagt er. Það bar ekki á neinu sem gæti kallast „tip stall“, hún rúllaði beint, alveg sama hve sterkur (eða veikur í þessu tilfelli) vindurinn var. Flugeiginleikar eru, sem sagt, frábærir. Nú vantar mig bara að prófa X-it í sterkum vindi og sjá hvernig loftfimleika er hægt að framkalla.

Lokaorð

Úr auglýsingu Irvine Ltd.Það eru ýmsar staðhæfingar á kassanum. Sumar eru réttar, aðrar ekki alveg eins réttar:

  • Fljótsmíðuð, aðeins 1,5 til 2 tímar
    • Þetta er alveg örugglega komið frá auglýsingadeildinni. Það er ekki minnsti möguleiki að smíða þetta módel á einum og hálfum tíma. Bara að líma litlímbandið niður tekur þennan tíma, ef ekki lengur.
  • Lágmarks vesen, hámarks ánægja
    • Ég tek ekkert endilega undir þetta með vesenið, en flugið er ánægjulegt, því get ég lofað..
  • Fullkomin hang-orrustuflugvél
    • Hún flýgur alla vega eins og engill. Nú á bara eftir að sjá hvernig hún reynist á móti öðrum slíkum.
  • Trefjalímband og litalímbönd fylgja
    • Það fer ekki á milli mála. Það sem vakti smá óánægju hjá mér var að ekki fylgdu rauðu og bláu límböndin sem ég var að vonast eftir til að geta búið til íslenska fánann
  • Hæf til listflugs
    • Ég efast ekkert um það.
  • Þarf aðeins einföld verkfæri
    • Það er ekki rétt. Það væri hægt að setja módelið saman nokkurn vegin alveg með þeim verkfærum sem finnast í venjulegu eldhúsi, en þá á eftir að skera skrúfurnar og setja blýið inn í frauðplastið.
  • Þarf ekkert lím
    • Það er líklega alveg rétt. Gamall módelsmiður sem notar marga lítra af trélími á ári var ekkert í rónni með að setja saman heilt módel án þess að nota lím, en lét sig hafa það.
  • Næstum óbrjótandi EPP frauðplast
    • Rétt. Flaug á tré án þess að nokkuð sæi á módelinu.
  • Tilskornir og formaðir stýrifletir
    • Já, það er allt til skorið og virðist meira að segja passa.
  • Flýgur hratt og stöðugt
    • Ekki vafi á að þetta er rétt. Miðað við hvað ég er búinn að fljúga henni, þá er hún nógu róleg með litlar hreyfingar til að vera alveg á mörkum þess að setja hana í hendurnar á nýliðum með smá flug í vasanum.
  • Tilskorin hólf fyrir stýringu
    • Já hólfin voru þarna, en ég þurfti samt að stækka þau fyrir gömlu stýringuna mína.

Eitt er alveg öruggt. X-it flýgur eins og engill. Ég á að vísu eftir að prófa hana í sterku hangi, en miðað við framkomu hennar í þessari golu sem við fengum, þá verður hún skemmtileg, ég get alveg lofað því. Þetta er frábærlega vel fljúgandi módel. Ég mæli með því.

Já, á meðan ég man, ég flaug á nokkuð góðum hraða á tré á brekkubrúninni, en það eina sem gerðist var að módelið hætti bara að fljúga, en það sá ekki á því: það er sterkt.

Hvað merkir þetta?

Ha?
Hvað merkir þetta?

Að lokum er bara ein spurning sem brennur á mér: hvað merkir þerra merki sem er utaná kassanum og líka á sérstökum límmiða sem ég límdi á módelið?

gaui@est.is

Svar frá Steven Atherton:

Hi,

I used to live in Iceland and fly models over in Reykjavik. I moved to England but still follow the model scene in Iceland. I saw your review of the ‘X-it’ which is one of my designs (the airplane and the box/ instructions… I’m a graphic designer) as I used to work for Irvine. (its me holding the x-ite in the catalogue, which I also designed) It was me who did the Icelandic flag for the catalogue, it looks quite good and was done to say hi to everyone in Iceland. You asked what the Dog logo means. Its an English term and mean "the dogs bollocks". That is, the very best. Its a joke we had at Irvine. Don’t think it translates all over the world.

Take care and your x-it looked great. I still have the Icelandic one and its still flies great and beats anyone in slope-combat!

regards

Steven Atherton

Athugasemd frá Haraldi Sæmundssyni:

Hæ!

Fróðleg lesning um X-IT vélina.

Þesskonar vél er búinn að vera til lengi í allskonar útfærslum og einna þekktast sem Zagi.

Ég er búinn að eiga Zagi og fjarfis (danska heitið á þessu) í mörg ár og finnst ekkert skemmtilegra en að fljúga þessu bæði með og án rafmagnsmótor

Sjá: http://www.simnet.is/haraldursa/smastund/frodleikur.htm

Þetta EPP er nánast óbrjótanlegt sem gerir að maður er alls óhreiddur við að prófa hina ýmsu kúnstir. Eini gallinn að ekki fæst nógu langur flugtími með rafmagnsmótor. En án mótors og í góðu hangi þá er hægt að fljúga allann daginn.

Það skemmtilegast við þetta er að ef að margir koma saman og eru að berjast með flugvélunum (combat) og reyna að fljúga hvern annan niður, það krefst verulegrar leikni að vera góður í þeim leik.

Þetta með þyngdarpunktinn stillir maður með batteríinu, færir það fram eða aftur.

kk,

Haraldur Sæmundsson.