Módelflug: Kafli 6


SVIFFLUG

Úlfur Guðjónsson
Ungur módelflugmaður með sviffluguna sína

Margir byrjendur í flugmódelsportinu álíta að mun auðveldara sé að læra að fljúga svifflugum, en vélflugum. Þetta er að sumu leyti rétt, en öðru ekki. Hljóð getur í sumum tilfellum truflað einbeitinguna hjá byrjendum, sérstaklega í sambandi við flugtak. Það þarf ekki að hugsa um elsneyti eða stillingu á mótor né hreinsa módel að loknu flugi og í flestum tilfellum fljúga svifflugur hægar en vélflugur (nema hraðskreiðar hang og hástartkeppnisflugur). En það sem stundum getur gert erfiðara fyrir í byrjun við að læra að fljúga svifflugum, er að yfirleitt er hvert flug mun styttra þannig að í hvert skipti sem nemandi er að fá tilfinninguna fyrir módelinu, þá þarf að fara að huga að lendingu vegna hæðarmissis. En byrjendum hættir við að hreyfa stýri of mikið og missa fyrir bragðið fyrr hæð, og það er eitt af grundvallaratriðum í módelsvifflugi að hafa allar hreyfingar mjúkar og taka EKKI OF KRAPPAR BEYGJUR.

Nú, það sem borið hefur verið saman hér að framan á þó sérstaklega við um hástart þ.e.a.s. flug á þeim stöðum sem menn fljúga mótorvélum. Öðru máli gegnir með hangflug, en það er mjög góð æfing að hafa rólega og góða byrjenda-svifflugu og kasta henni fram af brekkubrún og fljúga síðan í góðri hæð meðfram brekkubrúninni og má segja að í því tilfelli sé hægt að fljúga eins lengi og rafhlöðurnar endast.

Hér að framan höfum við rætt almennt um svifflug, en eins og við komum að seinna, þá skiptist svifflugið í tvær greinar, hástart og hang, en haldnar eru keppnir í báðum þessum greinum. Hér á eftir verður fjallað nánar um hvora grein fyrir sig.

Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“