Módelflug: Kafli 4


SMIÐI OG TILKEYRSLA MÓTORA

LÍM

Epoxy lím
Nokkrar tegundir epoxý líma

Margar gerðir af lími standa módelsmiðum til boða en þrjár gerðir eru mest notaðar. Fyrst skal telja hvítt trélím (PVA), kallað Grip, Hraðtak, Coll, Titebond o. fl. Þetta lím er gott á flestar viðartegundir og var til langs tíma eina límið sem notað var. Uppistaðan í því er vatn og viðarkvoða og það þolir þar af leiðandi ekki vatn eða aðra vökva eftir að þaö hefur þornað. Einnig er það frekar mjúkt eftir þornun og því erfitt að pússa það niður. Hægt er að fá vantsheld viðarlím.

Næst koma balsalím (Balsa Cement) t.d. UHU Hart. Það, eins og trélímið, þornar við uppgufun, en það eru leysiefni, hættuleg efni, sem gufa upp og því þarf að vera góð loftræsting þar sem það er notað. Einnig er það eldfimt. Þetta lím er gott á flestum við, en þá er borið á fletina og það látið þorna í 1-2 mínútur og síðan aftur borið á áður en fletirnir eru lagðir saman.

Næsta lím sem talið verður upp er kallað Epoxý lím. Það þornar ekki við uppgufun heldur við efnahvarf þegar tveim efnum er blandað saman í ákveðnum hlutföllum. Límkraftur Epoxýlíma er mikill og það þolir bæði vatn og eldsneyti. Það er það gott á fleti sem mikið mæðir á eins og til dæmis í kringum mótorfestingar og í samsetningu vængja í miðju. Epoxý lím ræðst ekki á frauðplast eins og balsalímið gerir og er því gott að nota það á vængi og skrokka úr því efni. Þegar Epoxý lím er notað ber að fara varlega því það getur verið ertandi og valdið ofnæmi á húð og öndunarfærum.

C-A lím
Nokkrar tegundir sekúndulíma

Til eru margar gerðir af Epoxý límum og hægt að fá lím sem harðnar á mislöngum tíma. Dæmi um Epoxýlím eru Technicoll Z1 (10 mín.), Technicoll Z2 (1 klst.), Hobby Poxy Formula 4 (4 mín), Hobby Poxy Formula 3 (1 klst.), Hobby Poxy Formula 2 (45 mín), UHU Plus (1 tími), UHU Plus Quickset (5 mín.), Stabilit Express (5 mín.) en það er sérstaklega gott ef á að líma tré og plast saman og ef þarf að líma saman hluti úr glerfíber.

Síðasta límtegundin sem hér verður talin er hið svokallaða "súperlím" eða sekúndulím, stundum kallað tonnatak (Cyano-acrylate). Þessi lím ganga eldsnöggt í efnasamband við vatn sem til staðar er í efnum sem líma á saman. Þetta skeður á nokkrum sekúndum og getur myndast mikill hiti og staðið gufa upp af. Vegna þess hve límið er þunnt þurfa samskeytin að passa vel saman svo þau límist. C-A lím eru góð á flest efni nema nokkrar plasttegundir sem ekki er hægt að líma hvort sem er. Þess má geta að uppistaðan í C-A límum er blásýra og það er því mjög eitrað. Einnig ber að varast að það getur límt skinn saman á sekúndubroti og því er mjög vandasamt að nota þetta lím. Dæmi um sekúndulím eru Greven, Hot Stuff, Zap o.fl.


Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“