Módelflug: Kafli 1


Val á flugmódeli og mótor

Byrjendavél
Byrjendavél tekur á loft

Forsenda þess að geta náð góðum árangri í hverju sem er, er að hafa áhuga og ánægju af því sem gert er, og að byrja á réttan hátt. Þetta á ekki hvað síst við um módelflug.

Öll viljum við smíða og fljúga súperflottum módelum sem eru eftirlíkingar af raunverulegum flugvélum, en þannig er það bara ekki í raun og veru.

Með því að byrja á of erfiðu módeli, verður brautin til árángurs þyrnum stráð, svo ekki sé minnst á brotin módel.

Jafnvel þótt menn hafi flugpróf, þýðir það ekki að þeir geti eða kunni að stjórna módeli. Það er gjörólíkt að sitja í stjórnklefa flugvélar og að stjórna fjarstýrðri módelflugvél með báða fætur á fósturjörðinni. Flugmaðurinn í flugvélinni FINNUR hvað flugvélin gerir, en flugmaður módelsins þarf að hafa sjóntilfinningu fyrir hraða, stefnu og fjarlægð módelsins jafnframt því sem hann þarf að hugsa um það í hvora áttina á að færa pinnann þegar módelið flýgur í áttina til hans.

Þegar byrjandi fer að læra að fljúga "alvöru" flugvél þá fer kennari hans ekki með hann upp í Boeing 747, CAP 21 eða F4E-Phantom. Nei, flugvélin sem byrjandinn fær að spreyta sig á er lítil léttbyggð háþekja (með vænginn ofaná skrokknum), sem er gerð þannig að einfalt er að stjórna henni og fylgjast með öllum mælum og öðru sem athuga þarf. Á sama hátt er mikilvægt fyrir þann sem ætlar að læra módelflug, að hann fái sér góða byrjendavél (trainer) til að læra á. Góð byrjendavél er einföld í smíði (jafnvel næstum tilbúin til flugs), sterkbyggð, stöðug og hægfleyg háþekja meö tiltölulega mikið vænghaf. Ástæðan fyrir því að byrjendavélar eru háþekjur er sú að háþekjan er að öllu jöfnu stöðugri en lágþekja. Það er meðal annars vegna þess að þyngd búksins verkar eins og "pendúll" eða kjölfesta, þ.e. þyngd búksins leitast við að rétta vélina af úr beygjum. Háþekjan "fyrirgefur" mistök byrjandans, en það getur lágþekjan ekki gert.

Við fyrstu sýn virðist val á fyrsta flugmódeli mjög erfitt vegna þess hve mikið er til af alls konar tegundum, en þegar farið er að athuga nánar kemur í ljós að valið byggist á tveim atriðum eingöngu:

1. Viltu vélflugu eða svifflugu?
2. Hve miklum tíma viltu verja í að smíða módelið?

Hér á eftir verður fjallað nánar um þessi atriði.

EfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“