Airfield Models (http://www.airfieldmodels.com/)Hvernig má búa til krossvið úr balsa

Krossviður úr búðum er alltaf undinn og aðeins til í nokkrum gerðum. Ef maður vinnur með undinn við, þá gerir það módelsmíðina bara erfiðari.

Í einu tilfelli var krossviðar former svo undinn að ég skemmdi skrokkinn við að reyna ð koma honum réttum og beinum í. Hann bara vildi ekki fara í eins og hann átti að gera og small alltaf aftur í þá mynd sem hann vildi vera í.

Að lokum tókst mér að líma formerinn í þar sem hann átti að vera, en seinna setti ég skrokkinn harkalega frá mér og þá sprakk hann (í alvöru) vegna þeirra átaka sem þurfti til að halda formernum á sínum stað.

Ég lærði mikilvæga lexíu þennan dag – meðal annars að samsetningarsett eru léleg miðað við það sem ég get sett saman sjálfur (ef ég fer eitthvað lengra með þessa hugmynd þá endar það með því að ég planta bráðum út mínum eigin balsa- beyki- og birkitrjám í bakgarðinum).

Þessi grein sýnir hvernig ég bý til minn eign krossvið úr balsaviði, en ég geri nákvæmlega þetta sama þegar ég bý til krossvið úr flugvélakrossviði. Það er hægt að búa til krossvið úr öllum plötum sem hægt er að líma saman. Niðurstaðan ætti að vera flöt í rauninni ef rétt er að farið.

Tilgangurinn með krossviði er að hafa við sem þolir átök úr fleiri en einni átt, en það gerir venjulegur viður ekki þar sem hann er veikari þvert á æðarnar. Ég nota krossvið í ýmsar styrkingar og festikubba og líka formera sem þarf að skera mikið úr.

Forðastu að nota stórar spildur af krossviði vegna þess að hann er þungur og það er næstum alltaf til betri aðferð til að styrkja stór svæði.

Tól og efni

  • hart flatt yfirborð
  • hörð flöt fjöl eða glerplata
  • farg eða þvingur
  • viður til að búa krossviðinn úr
  • epoxý or polýúretan lím
  • plastskafa
  • vaxpappír

Krossviðurinn búinn til

Safnaðu saman öllu efni og verkfærum sem þú þarft að nota. Skerðu viðarplöturnar í réttar stærðir í báðar áttir. Ef þú þarft að kantlíma plötur til að fá nógu stórrar, þá skaltu bara gera það um leið og þú samlímir. Þá getur þú sleppt því að kantlíma og bíða eftir að það þorni.

Skafðu hægharðnandi epoxý lím eða polýúretan lím á báða fleti.  Taktu síðan af eins mikið lím og þú getur til að létta viðinn.

Notaðu 30 mínútna epoxý eða polýúretan lím eins og Sikabond-545. Settu lím á báða fleti sem á að líma. Notaðu sköfu til að dreifa líminu og koma því ofan í æðarnar.

Það þarf mjög lítið lím sem samt gefur sterka límingu. Þegar þú ert búinn að þekja báða fleti, þá skaltu skafa í burtu eins mikið lím og þú getur.

Athugaðu: Ef þú notar flugvélakrossvið til að búa til krossvið, þá skaltu athuga að láta kúptar hliðar snúa hvora á móti annarri, þannig að vindingur vinni á móti vindingi. Vindingurinn kemur líklega aftur ef þú stakkar plöturnar saman eins og skálar.

Viðaræðar platna sem liggja saman ættu að mynda 90° horn. Venjulega nota ég bara tvö lög af viði þegar ég bý til krossvið. Þú getur, aftur á móti, notað eins mörg lög og þú telur þig þurfa. Raðaðu lögunum saman þannig að æðarnar snúi alltaf 90° á það lag sem er næst fyrir neðan eins og hér er sýnt.

Athugaðu að fleiri lög gera viðinn sterkari, en hann verður þá líka þyngri. Öllu má ofgera.

Þrjár 1/16 tommu plötur límdar saman til að fá krossvið sem er 3/16 tommu þykkur.

Í þessu tilfelli nota ég þrjú lög af 1/16” (1,5mm) balsa til að fá plötu sem er 3/16” (4,5mm) þykk.

Ég hefði getað notað tvö lög sem eru 3/32" (2,3mm) en ég vildi fá sterkara stykki. Úr þessari plötu ætla ég að saga former sem ég ætla síðan að skera helling úr.

Settu krossviðinn á milli vaxpappírblaða og settu það á hart, flatt yfirborð.

Brjóttu vaxpappír í tvennt og settu stykkið við brotið.

Þegar ég bý til smærri stykki, þá geri ég yfirleitt tvö í einu svo ég geti haft smá bil á milli þeirra. Þetta bil gerir það að verkum að fergingin verður jafnari þegar ég set plötuna ofan á og um leið verður fergingin betri.

Þetta stykki er nógu stórt til að taka við farginu svo þá þarf ég ekki að búa til annað.

Athugaðu að setja krossviðinn þinn á slétt og hart yfirborð sem þolir farg eða þvingur.

Þú ættir auðvitað að treysta því að fargið brjóti ekki borðið þitt.

Settu harða flata plötu ofan á krossviðinn.  Notaðu farg eða þvingur til að fergja stykkið á meðan límið harðnar. Settu flata og harða plötu ofan á krossviðinn og festu hana niður. Ég nota oft þunga hluti á verkstæðinu til að fergja svona stykki frekar en þvingur.

Verkfærakassar, fleiri plötur, rafgeymar úr bílum, topplyklasett o.s.frv. fergja vel án þess að taka mikið pláss. Settu farg á þangað til krossviðurinn er undir verulegum þunga.

Þú ættir að leyfa líminu að harðna í að minnsta kosti sólarhring. Venjulega leyfi ég stykkinu að sitja undir farginu þangað til ég þarf að nota það eða farghrúgan er farin að vera fyrir mér. Því lengur sem fargið er á, því betra.

Krossviður er tilvalið efni til að búa til hluta sem mikið er skorið úr. Formerinn sem ég síðan gerði vegur aðeins nokkur grömm, en hefur þann styrk sem þarf í verkið.

Flugvélakrossviður hefði verið sterkari og þyngri en nauðsynlegt var og balsaborð hefði ekki haft nauðsynlegan styrk með svona mikið skorið í burtu. Balsakrossviður er akkúrat það sem þarf.

Ókei, svo nú horfir þú á formerinn og hugsar „Þetta var heilmikil vinna fyrir einn ómerkilegan former!“

O-jú víst.

Þú ert líka að hugsa „Ekki bara það, heldur var hann rosa dýr líka!“

O-jú víst.

Og að lokum kemstu að niðurstöðu í málinu „Það var bara ekki þess virði!“

O-jú víst.

Ég reyni að byggja bestu mögulegu módel sem ég get, burtséð frá vinnunni og verðinu. Léttara og sterkara módel flýgur einfaldlega betur.

Já, annars, geymdu afskurðinn því hann er tilvalinn í hornastyrkingar.


Höfundarréttur © 2002 Paul K. Johnson
Þýtt með leyfi höfundar: Guðjón Ólafsson