Módelflug: Kafli 4


SMIÐI OG TILKEYRSLA MÓTORA

SMÍÐIN

Byrjað er á að festa teikninguna af þeim hluta sem smíða á með teiknibólum eða límbandi á smíðabrettið og síðan er plast breitt yfir til að verja hana gegn lími. Hér á eftir mun ég taka hvern hluta flugmódelsins fyrir sig og lýsa nokkrum orðum þeim aðferðum sem að gagni mega koma. Fyrst tek ég vænginn, síðan skrokkinn og loks stélið. Að síðustu mun ég svo fjalla um endanlega samsetningu og um það hvernig best er að setja fjarstýringuna í.

Þessar ábendingar eru ekki tæmandi og mikilvægt er að lesa leiðbeiningarnar sem fylgja módelinu mjög vel áður en smíði hefst og meðan á smíðinni stendur.

VÆNGURINN:

Vængur á byrjendamódeli er yfirleitt flatbotna þannig að einfalt er að raða honum saman á flötu smíðabretti. Ef hann er ekki flatbotna þá er fleigum raðað undir afturbrúnina þar til vængurinn situr réttur eða hann smíðaður á hvolfi. Mikilvægt er, hvort sem vængurinn er flatbotna eða ekki, að hann sé byggður réttur og án alls vindings - nema þar sem ákveðinn vængendavindingur (washout) er byggður inn í vænginn.

Venjan er að festa neðri vængbita annars vænghelmings á teikninguna, raða rifjunum á hann í réttri röð og líma þau þar. Mikilvægt er að öll rifin nema það innsta séu lóðrétt við brettið. Til að fá þau þannig er gott að nota spil sem vinkil þegar rifin eru límd á og pinnuð föst á brettið. Innsta rifið er límt á við ákveðið horn og er sýnt á teikningunni eða fylgir með skapalón til að nota þegar það er límt.

Þegar rifin hafa verið límd á eru afturbrún, frambrún og efri langbiti límd á. Nú eru þverplötur (Webbing) settir á langbitana á milli rifjanna til að gera vænginn stífari og balsaklæðning, mismikil eftir módelum, sett á rifin ofan á og neðan. Vanalegast er að sú klæðning sé frá langbita fram á brún og við rótina. Ef hallastýri eru á vængnum þá er stýrisstöngum til þeirra komið fyrir áður en klæðningin lokar honum.

Nú er hinn vænghelmingurinn smíðaður á nákvæmlega sama hátt. Ef einungis er teikning af öðrum vænghelmingi er hægt að setja plast á smíðabrettið, setja teikninguna á það á hvolfi og nudda á hana maskínuolíu eða matarolíu. Þá sést teikningin í gegnum pappírinn. Þá er plast sett ofan hana og vængurinn smíðaður eins og áður. Þegar báðir helmingar eru tilbúnir eru þeir pússaðir vel og síðan límdir saman í miðjunni. Þegar það er gert þarf að athuga tvennt. Í fyrsta lagi þarf að vera ákveðin vængfetta (dihedral) á vængnum og er því lýst í leiðbeiningunum eða á teikningunni hve mikil hún á að vera. Ef vængurinn er úr frauðplasti þarf stundum að pússa rótina þar til réttu horni er náð.

Í öðru lagi þarf að athuga að helmingarnir séu í réttri afstöðu hvor til annars, þ.e. að fram og afturbrúnir þeirra séu í sömu hæð.

Við líminguna er annar helmingurinn settur flatur á smíðabrettið með plasti undir rótinni. Epoxý lím er sett á rót hins helmingsins og hann síöan borinn að og festur. Síðan er sett undir endann til að lifta honum í rétta hæð. Þegar þessi líming hefur harðnað er oft settur glerfíber dúkur yfir samskeytin með epoxýlími til að styrkja þau.

SKROKKURINN:

Lamir
Uppbygging stýrisstangar

Skrokkurinn er yfirleitt einfaldari í smíði en vængurinn. Hann er oftast samsettur úr tveim flötum balsahliðum, nokkrum römmum (formers) og baki og botni. Byrjað er á að útbúa hliðarnar. Oftast er þunnur krossviður settur innan á þær og þarf þá að varast að gera tvær vinstri eða hægri hliðar, en það eru mjög algeng mistök. Best er að forðast þau með því að gera báðar hliðarnar í einu og láta þær liggja á brettinu með bökin saman.

Næst þarf að lima einn, tvo eða fleiri jafn breiða ramma við aðra hliðina þannig að ramminn og hliðin myndi 90 gráðu horn og kemur spilið góða þar við sögu. Þegar límið hefur harðnað er hin hliðin sett ofaná og límd föst. Athuga þarf með vinkli að hún sitji rétt og að báðar hliðarnar myndi 90° horn við rammana. Þegar þetta allt er hart er búkurinn lagður ofan á teikninguna þar sem sýnt er ofan á hann og hún notuð til að taka skrokkinn rétt saman að aftan. Ef það er ekki gert rétt þá verður búkurinn eins og banani í laginu og þá mun módelið líka fljúga eins og banani, þ.e. illa.

Lamir
Lamir á stýrum

Nú er botninn settur á og allir kubbar, plötur og festingar fyrir hjólastellið. Balsabotn er settur þannig á að trefjarnar í balsanum liggi þvert á lengd búksins. Þá er botninn sterkari en ef balsinn er settur á með trefjarnar samhliða lengdinni. Nú þarf, áöur en bakið er sett á, að athuga með stýrisstangir og eða kapla. Stangir þarf ekki að setja í fyrr en eftir á, en kapla verður að setja í áður en bakið fer á. Ég fjalla hér um kapla fyrst vegna að þeir eru notaðir í einhverjum mæli í flestum módelum en síðan ræði ég lauslega um stýrisstangir. Kaplar (cables) eru samsettir úr tveimur plaströrum og stálteini. Teinninn er festur innan í mjórra rörið og það leikur innan í því breiðara. Ytra rörið þarf að líma fast á nokkrum stöðum innan í skrokknum til að það geti ekki svignað og gefið eftir við átak. Góð regla er að líma það við hvorn enda og á tveim stöðum á milli. Ekki er ráðlegt þó að líma strax þann enda sem veit að stýrivélunum fyrr en búið er að setja þær í.

Tveir kaplar ganga yfirleitt aftur í módelið, einn fyrir hæðarstýrið og einn fyrir hliðarstýrið, og einn eða tveir fram í nef, einn fyrir mótorinngjöf og stundum einn fyrir stýringu á nefhjóli. Leggja þarf kaplana þannig að þeir liggi í sem næst beinni línu frá stýrivél út í stýrisflötinn. Ef ekki er komist hjá því að hafa einn eða tvo hlykki á kaplinum, t.d. þegar hann liggur í stýranlegt nefhjól, þá getur verið gott að hafa vafinn stálvír í staðinn fyrir innra rörið, því hann orsakar ekki eins mikinn núning.

Horn
Stýrishornin

Stýrisstöng er gerð úr balsastöng, venjulega 6 x 6 mm eða 8 x 8 mm þykkri, og tveimur 2 mm stálvírum með tengjum á endanum. Í staðinn fyrir balsastangir má hafa örvasköft úr glerfíber eða áli eða harðviðardíla. Vírarnir eru beygðir þannig að hægt sé að stinga þeim í göt sem boruð eru í stöngina og þar er vafið utanum þá með tvinna og límt með Epoxýlími. Síðan eru vírarnir beygðir þannig að þeir eigi greiða leið að stýrivélinni og út úr skrokknum.

STÉLIÐ:

Stélið er ýmist gert úr balsaplötum eða balsalistum. Plöturnar þarf aðeins að pússa til og rúnna að framan og eru þær þá tilbúnar. Ef líma þarf saman tvær plötur eða fleiri er það gert á smíðabrettinu til að allt verði slétt og fellt. Stundum er gott að setja á endana búta af harðari balsa með trefjarnar þvert á trefjarnar í plötunni til að varna því að stélið geti undið sig.

Lamir
Lamir á stýrum

Grindarstél eru límd og pinnuð saman ofan á teikningunni svipað og vængurinn og eru þau léttari og oft jafn sterk og stél úr plötum. Hæðarstýri og hliðarstýri þarf að mjókka aftur eins og sýnt er á mynd. Þegar þau eru sett á með lömum er tvennt sem þarf að athuga. Í fyrsta lagi eru það lamirnar, staðsetning þeirra, fjöldi og ísetning. Í venjulegu hæðar- og hliðarstýri eru þrjár lamir yfirleitt nóg á hvern stýrisflöt (sjá mynd). Þegar þær eru settar á VERÐUR stýrisblaðkan að vera sem næst stélinu. Ef lömin er einföld plastþynna er þetta enginn vandi, en ef þolinmóður er á löminni þá þarf að sökkva honum í blöðkuna (sjá mynd). Ef mikið bil myndast á milli blöðku og stéls þá kemst loftstraumurinn þar á milli, VIRKNI BLÖÐKUNNAR MINNKAR OG MÓDELIÐ VERÐUR SEINT TIL AÐ SVARA þegar reynt er að stýra því. Í öðru lagi þarf að athuga staðsetningu á stýrishornum á hæðar- og hliðarstýrum. Á myndinni sést hvar best er að staðsetja þau. Best er að þau séu rétt hjá löm í beinni línu við gatið sem kapallinn eða stöngin kemur út um. Til að hreyfing stýrisins verði jöfn í báðar áttir, hægri-vinstri, upp-niður, þá þarf að staðsetja hornið þannig að götin á því séu í línu við snúningsás stýrisins (sjá mynd). Ekki má líma lamirnar á fyrr en eftir að búið er að klæða/mála módelið.

ENDANLEG SAMSETNING:

Stél
Stélið límt á

Nú þegar vængur, skrokkur og stél eru tílbúin þarf að stilla öllu saman. Best er að gera þetta með því að setja vænginn á með teygjum eða nælonskrúfum og að líma síðan stélflötinn á þannig að hann sé beinn og réttur út frá vængnum séð framan/aftan frá og að ofan. Einnig þarf að stilla mótorinn þannig á að hann vísi aðeins niður (2-4°) og til hægri (2-4°). Á mynd sést hvernig hægt er að mæla módelið út og fá það rétt.

Að lokum er stélkamburinn límdur þannig á að hann myndi 90° horn við stélflötinn. Þetta er best gert með því að nota ódýran vinkil úr plasti sem hægt er að fá í öllum bókabúðum. Ef ekki er hægt að komast alveg að kverkinni má klippa eða skera úr vinklinum þannig að hægt sé að nota hann.

Þegar þetta er búið er módelið tilbúið til að taka við stýringunni og hægt er að klæða það.

Best er að nota plastfilmu á byrjendamódel. Hún er fest með heitu straujárni og strekkt með hita. Filman fæst í mörgum litum og er mjög hentug í skreytingar og viðgerðir.

ÍSETNING FJARSTÝRINGARINNAR:

Samsetning
Samsetning módelsins

Fjarstýribúnaðurinn sem fer í módelið er í þrem hlutum og þarf hver þeirra að vera á sínum stað í módelinu. Í fyrsta lagi er það rafhlaðan, í öðru lagi móttakarinn og í þriðja lagi stýrivélarnar og rofinn. Við skulum taka staðsetningu og frágang hvers hluta fyrri sig sérstaklega.

Það sem er sameiginlegt með öllum hlutum stýringarinnar er að það þarf að verja þá fyrir titringi. Lítilsháttar titringur getur á dálitlum tíma eyðilagt einhvern hluta fjarstýringarinnar og ef það gerist þá verður módelið stjórnlaust. Einnig getur olía, óhreynindi, ryk og vatn haft sömu áhrif. Því þarf að sjá til þess að stýritækin séu einangruð sem best. Til þess þarf ekki alltaf mikinn útbúnað, aðeins hugsun og tillitsemi með tækjunum.

1. RAFHLAÐAN:

Staðsetja þarf rafhlöðuna eða rafhlöðuhaldarann þar sem auðvelt er að ná til hans. Þó á þetta meira við um rafhlöðuhaldara heldur en um endurhlaðanlega rafhlöðu. Þó getur verið gott að geta náð í rafhlöðuna án þess að þurfa að gera meiri háttar uppskurð á módelinu. Einnig þarf að staðsetja rafhlöðuna þannig að þyngd hennar komi að gagni, þ.e. þannig að ekki þurfi að nota (eins mikið) blý til að módelið nái jafnvægi. Þetta gerir það að verkum að rafhlaðan er oftast höfð eins framarlega í módelinu og hægt er. Til að hindra það að rafhlaðan skemmi út frá sér er settur utan um hana þunnur svampur og hún skorðuð af með svampi eða frauðplasti. Ef rafhlaðan er undir eldsneytistanknum er gott að setja lítinn plastpoka utan um hana ef tankurinn skyldi taka upp á því að leka.

2. MÓTAKARANN:

Viðkvæmasta hluta stýringarinnar, móttakarann, verður að verja vel með svampi (ekki einangrunarplasti). Loftnetið úr honum má ekki stytta og það verður að strengja annað hvort innan í módelinu í plaströri eða utan á módelinu. Þó verður að ganga þannig frá því að það geti ekki slitnað við hnjask. Best er að gera það með því að strekkja á því með teygju.

3. STÝRIVÉLARNAR
Servó á sínum stað
Stírivélarnar settar í

er best að festa á þar til gerða bakka eða grindur sem fylgja með flestum stýringum. Ef það er gert og gúmmí-hringirnir sem fylgja með eru notaðir þá fæst svo til titringslaus festing fyrir stýrivélanar. Ef ekki er hægt að nota bakka eða grindur er mögulegt að notast við 3-4mm krossvið sem er límdur eða skrúfaður á furubita innan í búknum. Þegar það er gert verður að skrúfa stýrivélarnar niður með þar til gerðum búnaði eins og sýnt er á teikningunni. Eitt verður að athuga og það er að ekki myndist vindingur á plastkassa stýrisvélanna, því ef það gerist þá skemmast þær og geta valdið "krassi".

Rofann má setja hvar sem er en best er að hann sé ekki þar sem hætta er á að slokkni á honum ef módelinu er kastað í loftið. Einnig, ef hann er utan á módelinu, er best að hann sé þeim megin sem útblásturinn frá mótornum er ekki. Ef hann er hafður innan í er hægt að láta smá vír út um hliðina á skrokknum til að kveikja og slökkva. Góð regla er að setja rofa þannig á, að kveikt sé með því að ýta fram á við eða með því að toga í vír.

Áður en farið er að huga að flugi, þarf að gæta að þyngdarmiðjunni. Á venjulegu flugmódeli er þyngdarmiðjan (jafnvægispunkturinn) staðsett 25-30 prósent af vængbreidd mælt frá frambrún.

Staðsetning er yfirleitt sýnd með stöfunum CG eða táknunum CG.gif eða é

Módelinu er lyft upp með tveim fingrum undir vængina á þeim stað sem sýnt er á teikningunni og ef módelið er í jafnvægi þá er stélflöturinn láréttur. Ef þörf krefur verður að setja blý í stél eða nef þar til jafnvægi er náð, t.d. 50 grömm í senn. Mikið atriði er að setja blýið eins framarlega (eða aftarlega) eins og kostur er.

Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“