Balsaviður

eftir Paul K Johnson

Airfield Models (http://www.airfieldmodels.com/)Balsaviður er hefðbundið smíðaefni í flugmódelsmíði. Balsavið er hægt að fá í mismunandi stærðum og lögunum, og ef maður frumsmíðar, þá þarf maður dálítið af þeim öllum.

Þeir sem smíða úr smíðasettum þurfa líka balsavið hér og þar.   Balsa borð er grunnurinn. Nytsamar þykktir eru frá 0,8 mm upp í 10 mm, ásamt ýmsum stöngum, treköntum og kubbum. Ef þú getur sagað þínar eigin stangir og trekanta úr borðum, þá mun það spara þér heilmikla peninga.

Almennt séð sparast peningar við magnkaup eða að kaupa stórar stærðir. Til dæmis ef þú kaupir borð sem eru 10 sm á breidd og metri á lengd, þá borgar þú oftast minna á rúmsentimetrann en ef þú kaupir borð sem eru 8 sm á breidd og 90 sm löng. Stundum á hið gagnstæða við, sérstaklega ef erfitt er að ná í réttu stærðirnar.

Sjáðu líka


Val á viði

Ef þú frumsmíðar, þá er mikilvægt að geta valið viðinn rétt. Þú þarft líka geta ákvarðað hvers konar við er best að nota við mismunandi aðstæður.

Til dæmis ættu vængbitar að vera sterkir og með beinar æðar. Þeir eru yfirleitt úr þyngri viði, en þó að viður sé þungur, þá er hann ekkert endilega heppilegur í vængbita.

Æðamynstur

Það er æðamynstrið og þéttleikinn sem hafa skal í huga þegar viður er valinn. Ég mæli með að þú notir nákvæma bréfavog til að vigta viðinn.

Balsaviður

Balsaviður

Dæmi um tvær algengar tegundir balsaviðar.  Balsa hefur mörg mismunandi æðamynstur. Í sumum tilvikum er mikilvægt að velja balsa með rétt mynstur. Dæmi eru langir styrktarbitar eins og vængbitar og langbönd.

Annað dæmi eru plankar eins og notaðir eru í stélið á mörgum flugmódelum. Ef rangt æðamynstur er valið, þá getur það nokkuð örugglega orsakað verpingu..

Við önnur tækifæri er æðamynstrið ekki mikilvægt, eins og í fyllikubbum, sem eru að mestu til útlitsbóta. Við slík tækifæri er það þyngdin sem skiptir mestu máli. Annað sem hafa ber í huga er einsleitni kubbsins, þannig að auðvelt sé að tálga hann til og pússa.

Smelltu á myndirnar og skoðaðu þær í hærri uplausn. Báðir þessir balsabútar voru pússaðir með mjög fínum sandpappír. Neðri myndin sýnir sérlega djúpar æðar sem alls ekki er hægt að losna við, sama hversu mikið er pússað. Ef meira er pússað, þá hverfa líklega þær æðar sem eru opnar núna, en aðrar opnast bara í staðinn.

Það er þetta sem gerir balsa svo óhentugan undir málningu og hver vegna klæðningarefni eins og pappír, silki, silkspan og glerfíber eru notuð til að gefa öruggari og betri árangur.

Balsaviður er flokkaður í þrjá æðaflokka:

  • A-æðar

    A-æða viður hefur langar og beinar æðar og er bestur í stangir. Hann verpist auðveldlega og ætti ekki að notast á stór svæði án undirlags, eins og stélfleti.

    A-æða viður bognar auðveldar er B- eða C-æða viður og hægt er að nota hann sem skinn á skrokk, frambrúnir vængja (þar se eru næg rif til að halda undir hann) eða í krappar beygjur sem halda sjálfar við viðinn.

  • B-æðar

    B-æða viður er með meðal langar æðar sem eru ekki eins langar og í A-æða viði. Hann er stífari en A-æða viður, en klofnar ekki eins auðveldlega og C-æða viður. Þett er þess vegna góður viður á flöt svæði eins og skrokkhliðar, fram- og afturbrúnaskinn, rif, formera og í annað tilfallandi.

    Það er oftast heppilegt að velja B-æða við þegar maður er ekki alltof viss hvers konar við maður ætti að nota. Maður ætti samt sem áður alltaf að nota A-æða við í langar stangir sem þurfa að þola álag, eins og langbönd og vængbita.

  • C-æðar

    C-æða viður hefur flekkótt útlit vegna þess hve stuttar æðarnar eru. Ef þessi viður er rétt notaður, þá verður módelið létt og sterkt. Það er samt erfiðast að meta C-æða viðinn og hann getur verið gýfurlega mismunandi í styrk án þess að maður sjái neinn áberandi mun.

    Til dæmis getur C-æða viður virst sterkur vegna þess að hann er svo stífur þvert á æðarnar. Sami bútur getur samt verið mjúkur og veikur, þó hann virðist sterkur þegar maður reynir að beygja hann.


Gallar í viði

Slæmt æðamynstur (æðarnar virðat ekki hafa neina stefnu í borðinu)
venjulega gagnslaus viður.
Mismunandi þéttleiki
Ef þéttleikinn er stöðugur með æðunum en mismunandi þvert á þær, þá nota ég plankann ef ég get skorið af rönd sem er með sama þéttleika. Ég nota ekki allt borðið í einu vegna þess að það pússast ekki jafnt. Ég myndi, til dæmis, ekki nota það til að klæða væng.
Snúið borð eins og kanilsnúður
Ég kaupi aldrei við sem er mikið undinn. Smá verpingur er algengur og eðlilegur.
Kvistir
Kvistir í balsa eru örsmáir og ekki þarf að hafa áhyggjur af þeim.
Skordýraskemmdir
Lítur út eins og millimeters göt sem búið er að bora á ská í viðinn. Sögunarmillurnar eru yfirleitt búnar að fjarlægja mikið skemmdan við og ég hef aldrei séð við sem ég hefði ekki notað af þessum sökum.

Sögunarskemmdir

Samlímdur viður
Sumar sögunarmillur líma saman blokkir af balsa áður en þær saga þær. Það er þá áberandi strik niður eftir borðinu þar sem límingin er. Það er í raun engin sérstök ástæða til að kaupa ekki þennan við, en í sumum tilfellum er mis þéttur viður sitt hvoru megin við líminguna..
Til dæmis gæti helmingur borðsins verið mjúkt og sveigjanlegt á meðan hinn er harður og stífur. Ef viðurinn virðist vera eins báðum megin, þá er allt í lagi að nota hann. Stangir sagaðar eða geymdar manniig að þær eru komnar með varanlega verpingu
Þannig stangir á að forðast vegna þess að þær geta orsakað spennu í módelið eftir að búið er að rétta þær til og líma í rétt form.  Oft voru þessar stangir geymdar standandi eða þær bognuðu eftir að þær voru sagaðr úr balsaborðinu.
Stundum lítur viðurinn út eins og hann hafi bara ekki farið rétt í gegnum sögina og er eins og lant „S“ í laginu.
Fleigsögun
Þú værir hissa ef þú vissir hve mörg balsaborð eru fleigsöguð, þannig að þau eru ekki af sömu þykkt ef mælt er á breiddina. Ég hef séð borð sem voru með meira en hálfs millimeters mun á þyktina. Þó það virðist ekki vera mikið, þá skaltu velta fyrir þér hvað gerist ef þú límir þannig borð saman í vængskinn. Þú verður þá að pússa helling að viði burt til að fá slétt skinn og þá er það líka orðið of þunnt..

Mjókkar frá annarri brún á hina

Mjókkar frá annarri brún á hina (horft í endatré)

Svipaður þessu er viður sem mjókkar frá miðju út á brúnir. Ég hef ekki fengið útskýringu á því hvernig þetta gerist, en ég hef séð þetta nokkrum sinnum.

Mjókkar frá miðju út á brúnir

Mjókkar frá miðju út á brúnir (horft í endatré)

Myndirnar hér fyrir ofan eru ýktar til að sýna hvernig þetta lítur út..


Unnið með balsa

    Geymdu balsavið liggjandi til að forðast verpingu
  • Það þarf að aðlaga allan við að verkstæðinu áður en hann er notaður. Með öðrum orðum, þegar þú kaupir balsaborð (eða nýtt samsetningarsett) í næstu módelbúð, þá ættir þú að láta viðinn sitja á verkstæðinu þína í nokkra daga áður en þú notar hann.
    Viður dregst saman og tútnar út verulega. Ef þú tekur balsabút sem hefur legið í hlýrri verslun í margar vikur og límir hann í módelið þitt í svölum og rökum bílskur, þá ertu bara að biðja um verpingu og vandræði.
  • Balsaviður er mjúkur og þess vegna er almennt talið að það sé nokkuð aupvelt að vinna með hann. Þetta er bæði rétt og rangt.
    Það er auðvelt að tálga hann í rétt form, en það er erfitt að pússa hann sléttan. Endatré balsaviðar á það til að ýfast – sérstaklega í flóknum sveiglínum eins og á vængenda. Það er hægt að fást við þetta að tvo vegu.
    Í fyrsta lagi, formaðu stykkið eins og þú myndir venjulega gera. Pússaðu síðan með fínni og fínni sandpappír þar til þú er kominn með pappír númer 800 (vatnspappír). Ef viðurinn ýfist enn og gæti rðið til vandræða, þá skaltu nudda smávegis af plastmódellími á endatréð til að herða það. Nú ætti að vera auðvelt að pússa stykkið slétt án þess að viðurinn ýfist.
  • Það þarf alltaf að rétta balsaborð af ef það á að hafa beina hlið (t.d. fyrir vængskinn). Ég hef þurft að skera allt að 6 millimetra af borði til að rétta það af vegna þess hve það var bogið. Aldrei gera ráð fyrir að balsaborð hafi beina brún þegar þú kaupir það.. Hún er ekki til.
  • Stundum bognar balsaborð þegar maður sker af brún þess. Þegar það gerist, þá er hægt að gera annað af tvennu. Það sem ég geri venjulega er að nota borðið og rétti úr því með prjónum, límbandi eða einhvers konar þvingum.
    Hinn möguleikinn er að skera borðið örlítið breiðara en þú ætlaðir að gera vegna þess að það er engan veginn hægt að sjá fyrir hvaða borð bogna og hvaða borð bogna ekki. Með því að skera það aðeins of stórt, þá bognar það líklega eins mikið og það hefði gert ef þú hefðir skorið það í rétta stærð, en þú hefur nægan við til að skera það aftur eða pússa.
  • Ef brúnin þarf að vera þráðbein, þá fergi ég það með þungu réttskeiðinni minni með um 5 til 6 millimetra fram af borðbrúninni. Síðan nota ég langan pússikubb til að rétta brúnina af.
  • Þegar þú pússar hliðina á þunnu balsaborði, þá skaltu aldrei pússa fram og aftur. Sandpappírinn tekur stundum í borðið þegar þú dregur pússikubbinn til baka og þú mylur borðið í smátt. Pússaðu bara með því að ýta þegar borðið er mjög þunnt (0,5mm).
  • Ég elska Microlux borðsögina mína. Það eru til aðrar smærri borðsagir, en þeta er sú eina sem ég hef átt svo ég get ekki borið hana saman við aðrar. Það besta við hana er að þegar mig vantar eins lista, t.d. í vængbita, þá get ég sagað þá úr einu borði frekar en að standa í lengri tíma í módelbúðinni að samvelja líklegustu listana með því að að sveifla þeim til, beygja þá og giska vísindalega á þyngd þeirra. Þar að auki spara ég hellings pening vegna þess að borð eru ódýrari en listar. Áður en ég saga merki ég borðið í annan endann með tússi til að ég viti hvaða listar fara saman.
  • Ekki bara kaupa léttasta balsann sem þú finnur. Og ekki kaupa þungan við sem bognar auðveldlega. Þegar maður notar þungan við, þá á hann að vera sterkari og stífari. Ef viðurinn er þungur og sveigjanlegur, þá er hann gagnslaus.
  • Þegar þú notar balsastangir athugaðu þá að æðarnar taki ekki allt í einu snögga beygju út úr stönginni. Ef þær gera það, þá brotnar stöngin akkúrat þar um leið og reynir á hana. Þú getur notað svona stöng á frambrún ef annar listi kemur framan á hana, eða hún er styrkt á einhvern annan hátt, en ekki nota hann í vængbita eða langbönd. Þetta sama á við um allar stangir sem þú myndir nota í vængbita.
  • Í hvert sinn sem þú þarft að búa til eitthvert stykki, þá skaltu byrja á að leita í bútakassanum þínum. Finndu minnsta mögulega bútinn sem er nógu stór í verkið. Passaðu þig á að geyma allan afskurð sem hefur sérstaka lögun, eins og trekanta. Ég geymi allt sem er lengra en 12 millimetrar og set það í plastpoka svo það er auðvelt að finna það.

Balsakaup

Þú ættir að fá allar algengustu stærðir og þykktir balsa í módelbúðinni, borð, lista, trekannta og afturbrúnalista. Módelbúðir eru yfirleitt dýrari en heildsalar..

Ef þú ert að smíða úr samsetningarsetti, þá er líklega best að kaupa nokkurn vegin það sem þig vantar frá búðinni frekar en í pósti eða af Internetinu. Ástæðan er sú að þá getur þú valið sjálfur þann balsa sem þú telur heppilegastan fyrir verkið. Balsaviður fæst einnig í sumum föndurbúðum, en mín reynsla er að þar er hann mikið dýrari en annars staðar, fyrir utan að vaslið var mjög takmarkað.

Ég kaupi minn við í magni vegna þess að ég frumsmíða flest módelin mín. Magnkaup þýðir að ég kaupi ýmsar stærðir og þykktir svo að ég eigi alltaf það sem mig vantar.

Ég panta minn balsa frá Balsa USA. Ég hef líka pantað áður frá Sig Manufacturing, en þeirra viður er dýrari. Mér finnst Sig balsinn líka hafa betri áferð. Viðurinn frá Balsa USA er stundum í grófari kantinum, en ég pússa allan við hvort sem er, svo það er ekki vandamál. Ég vil frekar spara pening.

Tveir aðrir balsabyrgjar sem ég veit um eru Lonestar Models og Superior Balsa. Ég hef ekki pantað frá þessum fyrirtækjum, þannig að ég get ekki mælt með þeim. Ég hef heyrt módelsmiði segja að þeir séu ánægðir með vöruna frá báðum þessum fyrirtækjum.

Frá þýðanda:

Þessi grein er skrifuð í Bandaríkjunum og þess vegna er bara talað um verslanir og balsabyrgja þar. Hægt er að kaupa balsa víða í Evrópu og sú verslun sem þýðandinn hefur notað mest og virðist í fljótu bragði vera ódýrust er Inwood Models. Þeir eru með mikið úrval af balsa og öðrum viði og eru fljótir að senda það sem maður pantar frá þeim.


Höfundarréttur © 2002 Paul K. Johnson
Þýtt með leyfi höfundar: Guðjón Ólafsson