Volvostell

Grein skrifuð fyrir LMA Journal haustið 2005

Eitt stykki Volvó
Einn meðalstór Volvó

Til að búa til hjólastell fyrir stór módel er tekinn einn meðalstór Volvó, allt tekið í burtu sem ekki lítur út eins og hjólastelll og gjössovel, þú ert kominn með frábært hjólastell.

Ja, eiginlega er það ekki alveg svona einfalt. Það þarf að gera pínulítið meira. Málið er að ég var farinn að vera í vandræðum með hjólastellið á Ljúflingnum mínum (Lowly) í sumar. Þetta stell var búið til úr glertrefjum, þykkt og fallegt, og þó það væri nógu stórt, þá þoldi það bara ekki samsett áhrif þunga módelsins og harkalegra lendinga minna. Það var ekki svo alvarlegt að það hefði brotnað, það byrjaði að rofna (ég hef ekki betra orð yfir það) í beygjunum uppi við skrokkinn. Þetta gerði stellið ekki alveg ónothæft, heldur varð það bara svo mjúkt að ef ég lenti með meira en bara minnsta krafti, þá slóst spaðinn niður í jörð og brotnaði. Og þar sem spaðar eru dýrir, þá ákvað ég að fá mér betra hjólastell. Ég var kominn með geimaldarlegt koltrefjastell í sigtið þegar Birgir vinur minn spurði mig hvers vegna þeg notaði ekki bara Volvó. Ég vissi að hann vinnur hjá Volvó umboðinu, en þetta var nú ansi langt gengið. Eftir að hugsa þetta í nokkrar sekúndur, þá spurði ég hann hvað hann ætti við. Þá sagði hann mér að stuðararnir á Volvó bílum frá áttunda og fyrri hluta níunda áratugarins (árgerð 1970 til 1985 eða svo) væru gerðir úr besta áli sem hægt væri að fá og það væri auðvelt að skera stell úr þeim. Hann sagði að þeir væru á milli 4 og 6 mm að þykkt og það væri auðvelt að beygja það.

Stuðari af Volvó
Einn fallegur álstuðari

Þar með hófst leit mín að Volvó bílum. Ég plataði tvo félaga mína, Guðmund Haraldsson og Árna Hrólf Helgason í að leita með mér og við byrjuðum á því að finna og þræða allar skrangeymslur á Akureyri. Þær eru nokkrar, en þær taka ekki allar gamla bíla og geyma þá ekkert endilega í heili lagi. Á þriðja staðnum sem við komum á fundum við mikið safn af gömlum aflóga og skemmdum bílum og greinilegt var að eigandi þessa bílakirkjugarðs var Volvóaðdáandi því við sáum minnst fimm slíka án þess að leita sérlega mikið.

Gummi tilbúinn mað stuðarann
Hvar eru klippurnar?

Við spurðum eigandann kurteislega hvort við mættum skoða Volvóana hans og útskýrðum nákvæmlega til hvers við vildum þá. Hann virtist efins, en leyfði okkur að svipast um. Það tók ekki langan tíma að finna einn frá 80-og-eitthvað með stóran plast-stuðara sem einkennir þessa bíla. Við sögðum núna eigandanum að við hefðum fundið það sem okkur vantaði og báðum um leyfi til að skrúfa hann af og fara með hann. Ef þú, kæri lesandi, ætlar að gera slíkt hið sama, þá mæli ég með að þú hafir með þér þín eigin verkfæri og það er líklegast að stuðarinn sé festur á með 17mm boltum og róm. Það er einfalt að ná stuðaranum af. Fyrst togar maður fast í plastið utan á honum og slítur það af. Það er bara rétt fest svo það fari ekki neitt af sjálfsdáðum í venjulegri notkun, þannig að ef tveir eða þrír sæmilega hraustir karlmenn toga, þá losnar það af. Undir plastinu er skínandi fallegur álstuðarinn festur með fjórum boltum. Reyndu að finna óskemmdan bíl ef það er mögulegt, því að Volvó bílar krumpast saman í ótrúlegar járnahrúgur við minnsta högg og þá verður sérlega erfitt að komast að boltunum. Þegar stuðarinn var laus spurði ég hvað hann vildi fá mikið fyrir hann. Hann sagði okkur að ef við kæmum okkur í burtu á stundinni og hættum að spyrja hann asnalegra spurninga, þá mættum við eiga helv*** stuðarann.

Næsta skref var að hreinsa stuðarann smávegis. Innan á honum var þykkt lag af ryðvörn (nei, ég hef ekki hugmynd um hvað hún var að gera þarna – ryðvarnarþjónustur sprauta henni alls staðar). Tjöruhreinsir náði henni alveg burt.

Eitt stykki hjólastell
Svona lítur stellið út

Næst lá fyrir að teikna hjólastellið sem ég vildi fá á stuðarann. Ég mældi stellið sem ég var með undir Ljúflingnum og komst að því að ég gat náð tveim slíkum ofan af stuðaranum án þess að lenda á neinum götum. Það er auðvelt að saga svona ál. Best er að nota bandsög, en skurðarskífa í slípirokk virkar líka. Passaðu þig bara að hita álið ekki mikið upp, því það skemmir hersluna í því. Við fórum með okkar stuðara niður á skipasmíðastöð og spurðum einn af starfsmönnunum þar hvort við mættum fara í bandsögina þeirra. Hann sagði Nei, við mættum það ekki, en bauðst síðan til að gera þetta fyrir okkur. Stuttu seinna var efri hluti stuðarans kominn af og hann grófsagaði stellinn út eftir blýantslínumum sem ég hafði krotað á hann áður.

Það er afar fyndið að sjá svipinn á fólki þegar maður segir þeim hvað maður ætlar að gera við bílstuðara og biður það um aðstoð – það horfir á mann með blöndu af vantrú og meðaumkun: aumingja maðurinn er greinilega ekki alveg rétt raðaður í höfðinu og eigrar um með málmklump sem hann segist vera að nota til að smíða flugvél. Það hjálpar manni þó alltaf á endanum og tekur yfirleitt ekkert fyrir það.

Ljúflingur með ljúft hjólastell
Ljúflingurinn með stell sem þolir víkingalendingar

Guðmundur vinnur á vélaverkstæði á Akureyri og við fengum að nota verkfærin þar. Ef þú ert ekki jafn heppinn, þá skaltu ekki missa móðinn. Svona ál er auðvelt að vinna og stór gróf þjöl sargar rétt form á stellið á undrastuttum tíma og sléttir allar brúnir. Við notuðum slípibandið á verkstæðinu og náðum að slétta allar brúnir og gera þær beinar á met tíma. Verkstæðið á líka handknúna beygjuvél og við notuðm hana til að beygja stellin. Það er auðvelt að nota skrúfstykki og viðarbúta til að ná sama árangri. Ef þú vilt fá boga á leggina frekar en beinar línur, þá er hægt að beygja stellið fríhendis í skrúfstykkinu. Niðurstaðan var að við fengum tvö hjólastell sem líta út fyrir að hafa verið keypt í búð. Þau eru um 4mm þykk með kant framaná sem nær 6mm þykkt.

Ég skellti stellinu mínu undir Ljúflinginn minn og næstu helgi fór ég að fljúga honum. Lendingar eru hreinn draumur. Þegar hjólin snerta, þá gefur stellið nógu mikið eftir til að taka við mesta kraftinum, en alls ekki nóg til að spaðinn nái að slást í jörðina. Snertilendingar eru auðveldari núna, sérstaklega vegna þess að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að stellið gefi upp öndina í miðri snertingu. Og stellið er líka frábærlega flott vegna þess að ég bjó það til.

Guðjón Ólafsson